Skipa nefndir vegna úttektar á eigin verkum

Ríkisstjórn Íslands.
Ríkisstjórn Íslands. Mbl.is/Hari

Ríkisstjórnin ætlar að skipa tvær nefndir til að gera úttekt á viðbrögðum stjórnvalda við kórónuveirufaraldrinum. Þetta kemur fram í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is. 

Önnur nefndin mun fjalla um viðbúnað og viðbrögð stjórnkerfisins. Hún mun til dæmis skoða samvinnu ráðuneyta og stofnana og hins opinbera og einkaaðila og upplýsingamiðlun, auk þess að horfa til samfélagslegra þátta og fyrirsjáanlegra samfélagsáhrifa.

Hin nefndin mun fjalla um efnahagsleg viðbrögð stjórnvalda við faraldrinum. Hún mun meðal annars skoða hvernig efnahagslegar aðgerðir sem gripið var til hafa áhrif á stöðugleika í hagkerfinu, peningastefnu, fjármál hins opinbera, fjárfestingu, einkaneyslu og einstakar atvinnugreinar og samspil fjármálastefnu, peningastefnu og kjarastefnu.

Mesta kreppa frá lokum seinni heimsstyrjaldar

Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu telur ríkisstjórnin nú tímabært að hefja úttekt á því hvernig til tókst að takast á við kórónuveirufaraldurinn.

Heimsfaraldurinn hafi valdið mestu kreppu í heiminum frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Þó að vel hafi gengið á Íslandi í samanburði við önnur lönd séu áhrif hans einnig mikil hér á landi.

Gætt verður að því að úttektirnar endurtaki ekki endurmat sem þegar er farið af stað eða er í bígerð á vegum landlæknis, sóttvarnalæknis og almannavarna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert