Eiríkur Búi Halldórsson stjórnmálafræðingur er staddur í Mílanó þar sem allt ætlaði um koll að keyra í gærkvöldi þegar Ítalía tryggði sér Evrópumeistaratitillinn í knattspyrnu í úrslitaleik gegn Englandi.
Hann segir að nokkurra mínútna alsæla hafi gripið um sig meðal stuðningsmanna liðsins þegar Gianluigi Donnarumma, markvörður Ítala, varði síðustu vítaspyrnu Englendinga frá hinum unga Bukayo Saka og tryggði Ítölum sigur.
Eiríkur er í Mílanó ásamt þremur vinum sínum. Þeir lentu á Ítalíu í gær, klukkustund fyrir leik, og þurftu því að hlaupa um götur borgarinnar í leit að sætum á einhverri kránni. Fyrst um sinn héldu Ítalirnir að Eiríkur og félagar væru Bretar, en þegar þeir gerðu grein fyrir þjóðerni sínu og sögðust „auðvitað halda með Ítölum“ var þeim tekið sem innfæddum.
„Þetta var náttúrlega bara eitthvað súrrealískt,“ segir Eiríkur við mbl.is, skiljanlega nokkuð timbraður. Hann kvaðst þó vera að „vinna í því“.
„Það var náttúrlega ekkert eðlilega mikil stemning. Löggan horfði á leikinn með okkur meira að segja, enda var ástandið þannig að það var eins og ákveðið hefði verið að öllu veseni skyldi sleppt. Það voru bara allir svo glaðir.“
Eiríkur og félagar fögnuðu með Ítölum fram undir morgun og þegar yfir lauk voru þeir búnir að læra ítalska þjóðsönginn utanbókar og voru þremur ítölskum fánum ríkari. Þessari ævintýraför þeirra drengja tekur enda á fimmtudag og segir Eiríkur að sængur verði með öllu óþarfar þangað til.
„Ég svaf ekki með sæng í nótt, ég svaf með ítalska fánann.“
Þegar mbl.is ræddi við Eirík var klukkan nýorðin 12 á hádegi í Ítalíu og mátti greina að borgin lægi í örlitlum dvala eftir nóttina.
Hann segir að nú taki mögulega við heimsókn þeirra félaga að Como-vatni, sem Íslendingar muna eflaust eftir, heimsókn á San Siro, þekktasta leikvang þar ytra, og svo færi án efa enginn heim án ítalskrar landsliðstreyju í farteskinu.