Kafarar frá Landhelgisgæslunni hefja í dag skoðun og skrásetningu flaksins af El Grillo sem liggur á botni fjarðarins. Tilgangurinn er að kanna umfang olíuleka úr tönkum skipsins og hvaða möguleikar eru á að loka fyrir lekann til bráðabirgða, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Olía lekur gjarnan úr El Grillo á sumrin, þegar sjórinn hitnar. Í maí á síðasta ári steyptu starfsmenn Gæslunnar í mannop á einum tanki flaksins en þaðan lak olía til yfirborðs. Sigurður Ásgrímsson, yfirmaður séraðgerða hjá Landhelgisgæslunni, segir að það komi starfsmönnum Gæslunnar ekki á óvart að byrjað hafi að leka aftur. Hann segir að viðgerðin í fyrra hafi haldið en þeir hafi vitað að þetta vandamál gætið hangið yfir mönnum áfram. Hann veltir því fyrir sér hvort aurskriðan sem féll á bæinn í desember og í sjó fram kunni að hafa aukið á vandann. Telur líklegt að flóðbylgja undan aurnum hafi ýtt við skipinu.
Hafnarstjórar bera ábyrgð á að grípa til ráðstafana vegna bráðamengunar innan hafnarsvæða. Rúnar Gunnarsson, yfirhafnarvörður við Seyðisfjarðarhöfn, segir að erfitt sé að fanga olíuna sem lekið hefur úr skipinu síðustu daga með þeim búnaði sem höfnin hefur yfir að ráða, ef það sé þá yfirleitt hægt. Hann segir að rætt hafi verið við Umhverfisstofnun um hugsanlegar aðgerðir. Spurður um varanlega lausn segir Rúnar að ekkert annað sé í stöðunni en að fjarlægja skipið. El Grillo sé að tærast í sundur. Hann vonast eftir því að skoðun Landhelgisgæslunnar gefi betri mynd af því hvað er að gerast í flakinu.