Andlát Daníels Eiríkssonar, sem lést á Landspítalanum í apríl á þessu ári eftir að honum voru veittir áverkar í Vindakór í Kópavogi degi áður, er ekki komið á borð héraðssaksóknara. Þetta kemur fram í svari embættis héraðssaksóknara við fyrirspurn mbl.is.
Rúmenskur karlmaður, sem um tíma var sat í gæsluvarðhaldi vegna málsins, hefur sagt að um slys væri að ræða og kvaðst niðurbrotinn vegna andláts Daníels.
Tengsl voru á milli mannanna og einhver samskipti á milli þeirra, eins og Margeir Sveinsson yfirlögregluþjónn rannsóknardeildar, staðfesti í kjölfar málsins. Margeir sagði einnig að málið tengdist að öllum líkindum ekki skipulagðri glæpastarfsemi eða manndrápinu í Rauðagerði, sem þá var tiltölulega nýskeð.
Þrír karlmenn voru upphaflega handteknir vegna Vindakórs-málsins en tveimur þeirra var sleppt úr haldi stuttu síðar.
Þá var meðal annars lagt hald á ökutæki í þágu rannsóknarinnar, eins og áðurnefndur Margeir tjáði mbl.is fyrr á árinu.