Um tíma voru stærstu skjálftarnir að mælast beint undir húsi Hafsteins Helga Halldórssonar og Guðrúnar Öglu Egilsdóttur, á eyjunni La Palma þar sem eldgos hófst í dag. Mörgþúsund skjálftar hafa mælst á svæðinu undanfarna viku.
Þau Guðrún Agla og Hafsteinn Helgi eru nýflutt heim til Íslands, ásamt dætrum sínum, en eiga þriggja hektara landareign á La Palma þar sem þau rækta lárperur, papaya og mangó.
„Við erum að fylgjast með hvar gosið kemur niður. Eignir okkar og akurinn er líklega sloppinn,“ segir Hafsteinn en á tímabili var það alls kostar tvísýnt.
Mælingar á skjálftanum bentu til þess að eldgosið kynni að brjótast út beint undir húsi þeirra. Rýmdu þau því akurinn en fólkið sem vinnur fyrir þau fór norðar á eyjuna. Sprungan opnaðist svo í þriggja kílómetra fjarlægð frá akrinum.
„Þetta er í raun allt sem við eigum, við erum búin að gróðursetja þúsund ávaxtatré, gera upp rústir og setja upp sólarsellukerfi.“
Hafsteinn bendir á að eyjan sé eldfjallaeyja og því við því að búast að það kæmi að eldgosi á einhverjum tímapunkti, hann hafði þó ekki grunað að það gerðist svo hratt og svona nálægt akrinum þeirra.
„Eftir á hyggja hefðum við kannski ekki átt að vera svona stórtæk á eldfjallasvæði.“
Þróun gossins núna bendir til þess að það muni ekki fara inn í þéttustu byggðina eða á borgina heldur renna niður að sjó.
Fjölmörg hús hafa þó orðið hrauninu að bráð nú þegar og þau verða fleiri. „Þetta skríður yfir götuna og étur allt sem á vegi þess verður, líklega stærsta eldgosatjón í Evrópu.“
Unnið er að því að rýma húsin neðan við ströndina sem teljast í mestri hættu.
Í gær, áður en gosið hófst, var gengið í hús og fólki með skerta hreyfigetu komið í burtu til vonar og vara.
„Tjón á fólki er mjög ólíklegt, þetta er svo lítið samfélag að það fer ekki framhjá neinum ef það vantar einhvern.“
Hafsteinn og Guðrún eru búin að bjóða húsið sitt að láni fyrir þá sem geta ekki verið heima hjá sér. „Það er búið að taka 1.300 manns og koma þeim fyrir, íþróttahallirnar eru til að mynda undirlagðar.“
Hafsteinn bendir á að eyjan La Palma sé fremur brött og því erfitt að komast ofan við eldgosið. „Þetta lokar í raun bara eyjunni því hraunið mun renna niður að sjó.“