Grímseyjarkirkja er brunnin til grunna. Engum verðmætum var hægt að bjarga eftir eldsvoðann sem þar kom upp fyrir miðnætti.
Kolbrún Björg Jónsdóttir, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Norðurlandi eystra, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
Greindi mbl.is fyrst frá því að mikill eldur logaði í Grímseyjarkirkju og unnu þá slökkviliðsmenn að því að ráða niðurlögum eldsins en engum varð meint af.
„Síðan tekur rannsókn við og þá verða upptök eldsins rannsökuð,“ segir Kolbrún.
Hvernig gekk slökkvistarfið?
„Þetta er auðvitað timburhús og það er vöktun á húsinu. Þeir áttu aldrei möguleika á að bjarga þessu. Það versta er afstaðið og svo kemur að rannsókn þar sem málin verða rannsökuð frekar,“ segir Kolbrún.
Slökkviliðsmenn vinna nú að því að slökkva glóðir á svæðinu.
Ekki er vitað um upptök eldsins og lögreglu er ekki kunnugt um að neinn hafi verið staddur í kirkjunni þegar útkall barst að hennar sögn.
Grímseyjarkirkja var byggð árið 1867 en stækkuð og endurbætt árið 1932.