Kristrún ætlar ekki að svara

Kristrún Frostadóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður.
Kristrún Frostadóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður. mbl.is/Sigurður Bogi

Kristrún Frostadóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, segir í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is að hún hyggist ekki tjá sig um sín persónulegu fjármál eða viðskipti sem hún átti áður en hún hóf afskipti af stjórnmálum. Hún ætli að einbeita sér að því að ræða um málefnin sem Samfylkingin vill berjast fyrir.

„Nú þegar lítur út fyrir að ég nái kjöri á Alþingi mun ég að sjálfsögðu, eins og aðrir, fylgja öllum reglum varðandi hagsmunaskráningu þingmanna og gefa upp viðeigandi eignir. Þar er ekki miðað við að fólk opni sín persónulegu fjármál upp á gátt mörg ár aftur í tímann eins og ég hef verið krafin um af sumum fjölmiðlum,“ segir Kristrún.

Hagnaðurinn nærri 100 milljónir

Áður en Kristrún bauð sig fram til Alþingis fyrir Samfylkinguna var hún aðalhagfræðingur Kviku banka.

Í umfjöllun Viðskiptablaðsins um kaupauka- og kaupréttarmál starfsmanna Kviku, sem m.a. hafa vakið spurningar um hvernig skuli skattleggja ávinning þeirra, segir að Kristrún hafi hagnast um nærri 100 milljónir af nýtingu kauprétta á vettvangi Kviku banka, sem Viðskiptablaðið byggir á uppgjörum og útboðslýsingu Kviku.

Í yfirlýsingu og svari Kristrúnar er hvorki vikið að kaupverðinu né söluvirði hlutarins og öðrum spurningum mbl.is látið ósvarað.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, var inntur eftir því í leiðtogakappræðum Dagmála á þriðjudag hvort ekki væri rétt að Kristrún svaraði spurningum fjölmiðla um þessi mál. Hann minnti á að hún hefði þegar gefið almenna yfirlýsingu um þau, en var þá spurður hvort ekki væri eðlilegt að hún svaraði með efnislegum hætti.

„Hún mun gera það og hún hefur svarað […] Sannarlega mun hún svara,“ svaraði Logi.

Í svari Kristrúnar til mbl.is segir aðeins, að henni líkt og öðru starfsfólki hafi boðist að fjárfesta í áskriftarréttindum í bankanum og að þau hjónin hafi ákveðið að nýta sparnað sinn til þess. 

Svar Kristrúnar í heild sinni má lesa hér að neðan: 

Eins og margoft hefur komið fram þá var ég starfsmaður Kviku banka áður en ég ákvað að bjóða mig fram til Alþingis fyrir Samfylkinguna. Eins og öðru starfsfólki bauðst mér kostur á að fjárfesta í áskriftarréttindum í bankanum og við hjónin nýttum okkur sparnað sem við áttum til þess.

Nú þegar lítur út fyrir að ég nái kjöri á Alþingi mun ég að sjálfsögðu, eins og aðrir, fylgja öllum reglum varðandi hagsmunaskráningu þingmanna og gefa upp viðeigandi eignir. Þar er ekki miðað við að fólk opni sín persónulegu fjármál upp á gátt mörg ár aftur í tímann eins og ég hef verið krafin um af sumum fjölmiðlum. Þar af leiðandi hyggst ég ekki tjá mig um mín persónulegu fjármál eða viðskipti sem ég átti áður en ég hóf afskipti af stjórnmálum.

Að öðru leyti vísa ég til þess sem ég hef áður sagt um málið í ítarlegum færslum á netinu. Ég ætla einbeita mér að því að ræða um málefnin sem ég og við í Samfylkingunni viljum berjast fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka