Grímseyingar afþakka kirkju frá Keflavík

Kirkjan sem er staðsett suður á Keflavíkurflugvelli.
Kirkjan sem er staðsett suður á Keflavíkurflugvelli. Ljósmynd/Sigurjón Hafsteinsson

Grímseyingar samþykktu á fundi í gærkvöldi að þiggja ekki að gjöf kirkju sem er staðsett við hliðina á slökkviliðsstöðinni á Keflavíkurflugvelli.

Söfnun hefur staðið yfir fyrir nýrri kirkju eftir að Miðgarðakirkja brann til grunna í síðustu viku og mun hún halda áfram.

Rausnarlegt boð 

„Því miður hentaði hún okkur ekki en þetta var ótrúlega flott og rausnarlegt boð hjá þeim,” segir Alfreð Garðarsson, formaður sóknarnefndar Miðgarðasóknar í Grímsey, og á þar við starfsmannafélag slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli sem bauð þeim kirkjuna að gjöf.

Möguleiki var á að nota hana til bráðabirgða þangað til önnur kirkja yrði byggð eða til frambúðar.

Kirkjan kemur upprunalega frá Stokksnesi, skammt frá Höfn í Hornafirði, þar sem ratsjárstöð Bandaríkjahers var staðsett. Þaðan var hún flutt yfir í Rockville á Miðnesheiði og því næst flutt við hliðina á slökkviliðsstöðinni á Keflavíkurflugvelli þar sem hún stendur í dag. Kirkjan er staðsett innan haftasvæðis flugverndar Isavia og er skráð á félagið. Isavia veitti sitt samþykki fyrir flutningi kirkjunnar og var félagið allt af vilja gert til að aðstoða við verkefnið, þar á meðal forstjórinn Sveinbjörn Indriðason.

Vildi koma Grímseyingum til hjálpar

Það var Sigurjón Hafsteinsson, sem er í stjórn slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli, sem fékk hugmyndina að því að gefa Grímseyingum kirkjuna eftir að hafa heyrt af brunanum. „Mín fyrstu viðbrögð voru hvað væri hægt að gera til að koma Grímseyingum til hjálpar,” greinir hann frá. „Hugur okkar með þessu var fyrst og fremst að styðja við bakið á Grímseyingum þannig að þeir gætu fengið bænahús fyrir komandi tíma ljóss og friðar,” bætir hann við. 

Kirkjan hefur verið tekin í gegn af slökkviliðsmönnum á Keflavíkurflugvelli …
Kirkjan hefur verið tekin í gegn af slökkviliðsmönnum á Keflavíkurflugvelli og er vel með farin. Ljósmynd/Sigurjón Hafsteinsson

Of mikil þrengsli 

Á fundinum í gærkvöldi, sem á þriðja tug manns sótti, ræddu Grímseyingar um að Miðgarðakirkja hafi verið fullþröng þegar bera átti kistu þangað inn og út og að kirkjan sem þeim var boðin hafi verið enn þá þrengri. Sömuleiðis yrðu tvær kirkjur komnar á staðinn þegar búið væri að byggja nýja kirkju.

„Það vildu allir byggja aðra kirkju og hafa hana heldur breiðari en þá gömlu,” segir Alfreð.

Miðgarðakirkja.
Miðgarðakirkja. mbl.is/Sigurður Bogi

Hann bætir við að söfnunin fyrir nýrri kirkju hafi fengið mjög góðar undirtektir og í gær var upphæðin komin í 3,8 milljónir króna. Reikn­ings­upp­lýs­ing­ar sókn­ar­inn­ar eru banki 565-04-250731 og kt. 460269-2539.

Hann kveðst ekki vita hvað ný kirkja kostar en vonast til að framkvæmdir geti byrjað næsta vor. Fram að þeim tíma verður félagsheimilið í Grímsey notað fyrir kirkjuathafnir.  

Spurður út í eldsupptök vegna eldsvoðans í síðustu viku segir hann lögregluna á Norðurlandi eystra telja að eldurinn hafi kviknað út frá rafmagni en ekki náðist í lögregluna við vinnslu fréttarinnar.

Brunarústir Miðgarðakirkju í Grímsey.
Brunarústir Miðgarðakirkju í Grímsey. Ljósmynd/Svafar Gylfason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert