Ríkisstarfsmenn fá 120 krónur á kílómetra

Ríkisstarfsmenn fá 120 krónur greiddar fyrir hvern ekinn kílómetra í …
Ríkisstarfsmenn fá 120 krónur greiddar fyrir hvern ekinn kílómetra í störfum sínum fyrir hið opinbera, upp að 10 þúsund kílómetrum. mbl.is

Svokölluð ferðakostnaðarnefnd hefur ákveðið akstursgjald í aksturssamningum ríkisstarfsmanna og ríkisstofnana. Þar að auki hefur nefndin ákveðið dagpeninga til greiðslu gisti- og fæðiskostnaðar ríkisstarfsmanna á ferðalögum innanlands á vegum ríkisins.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

Um aksturskostnað segir að ríkisstarfsmenn skulu fá greiddar 120 krónur fyrir hvern kílómeter sem þeir ferðast á bíl upp að 10 þúsund kílómetrum. Fyrir ekna kílómetra á bilinu 10-20 þúsund fá ríkisstarfsmenn greiddar 108 krónur á kílómetra og 96 krónur fyrir kílómetra umfram 20 þúsund kílómetra.

Þannig fengi ríkisstarfsmaður, sem ekur 16.500 kílómetra í starfi sínu á vegum ríkisins 1,92 milljónir króna greiddar fyrir.

Við útreikning á sérstöku gjaldi skal bæta 15% álagi á almenna gjaldið og við útreikning á torfærugjaldi skal bæta 45% álagi á almenna gjaldið.

Um gisti- og fæðiskostnað segir, á vef Stjórnarráðsins, að 30.700 krónur skuli greiddar til hvers starfsmanns fyrir gistingu og fæði í einn sólarhring, 17.700 krónur fyrir gistingu í einn sólarhring.

Fyrir fæði í einn dag (minnst 10 klst. ferðalag) skulu greiddar 13.300 krónur og fyrir fæði í hálfan dag (minnst 6 klst. ferðalag) skulu greiddar 6.500 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert