Dregið verulega úr rigningunni

Síðustu 48 kukkustundir hefur rigning mælst 133 mm á Siglufirði …
Síðustu 48 kukkustundir hefur rigning mælst 133 mm á Siglufirði og 119 mm á Ólafsfirði. mbl.is/Stefán Einar Stefánsson

Gríðarlega mikil rigning hefur fallið á Norðurlandinu í nótt og í gær og þurfti meðal annars að dæla upp úr kjöllurum á Ólafsfirði í nótt. Að sögn Þorsteins V. Jónssonar, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands, hefur þó verulega dregið úr úrkomunni og mun því ekki rigna jafn mikið í dag.

Þorsteinn bendir þó á að þó sé enn einhver hætta á skriðum því allt sé orðið vatnsósa. Viðvaranir á Norðurlandi vestra og eystra gilda því til miðnættis. 

Jó­hann K. Jó­hanns­son, slökkviliðsstjóri slökkviliðs Fjalla­byggðar, sagði í samtali við mbl.is að staðkunnugir segðu rigninguna með því mesta sem þeir hefðu séð. Þorsteinn segir rigninguna vissulega mikla en hvort hún sé sú mesta sem hefur fallið á svæðinu gat hann ekki sagt til um. 

Gæti hafa rignt mest í Útkinn og Kinn

Síðustu 48 klukkustundir hefur rigning mælst 133 mm á Siglufirði og 119 mm á Ólafsfirði. 

Þá rigndi einnig rosalega í Útkinn og Kinn að sögn Þorsteins en Veðurstofan er ekki með mæla á því svæði svo ekki er vitað hversu mikið hefur fallið þar. Það gæti því hafa rignt meira þar en í Siglufirði og Ólafsfirði. 

„Það hefur ekkert eiginlega rignt þarna í sumar og núna kemur þetta allt með haustinu,“ segir Þorsteinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert