Sorpa semur við Björn

Hin nýja gas- og jarðgerðarstöð Sorpu í Álfsnesi reyndist dýr. …
Hin nýja gas- og jarðgerðarstöð Sorpu í Álfsnesi reyndist dýr. Kostnaður fór 1,3 milljarða fram úr áætlun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held að það sé best fyrir alla að þetta sé frágengið og við getum farið að snúa okkur að uppbyggingunni,“ segir Líf Magneudóttir, formaður stjórnar Sorpu, í samtali við Morgunblaðið.

Á fundi stjórnar Sorpu í síðustu viku var samþykkt að ganga til samninga við Björn Halldórsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sorpu, á grundvelli minnisblaðs sem kynnt var á fundinum. Umrædd sátt snýr að dómsmáli sem Björn höfðaði á hendur Sorpu eftir að honum var sagt upp starfi framkvæmdastjóra í febrúar á síðasta ári.

Líf Magneudóttir.
Líf Magneudóttir. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

Stjórn Sorpu lýsti því yfir að uppsögn Björns ætti sér meðal annars stoð í skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um stjórnarhætti og áætlanagerð vegna gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi. Í skýrslunni voru gerðar alvarlegar athugasemdir við störf Björns hvað varðaði upplýsingagjöf og gerð kostnaðaráætlunar. Sem kunnugt er fór kostnaður við stöðina í Álfsnesi langt fram úr áætlun, eða sem nam 1,3 milljörðum króna. Björn taldi aftur á móti að stjórn Sorpu viki sér undan ábyrgð á umræddum framkvæmdum. Hann staðhæfði að uppsögnin hefði verið ólögmæt og stjórnin hefði beitt „sérstaklega meiðandi“ aðferðum við starfslok hans.

Eins og kom fram í Morgunblaðinu á þeim tíma krafði Björn Sorpu um skaðabætur sem svöruðu til fimm ára launa, miskabóta og að réttindi vegna námsleyfis yrðu gerð upp. Alls hljóðaði krafa Björns upp á ríflega 167 milljónir króna auk vaxta og dráttarvaxta.

Björn H. Halldórsson.
Björn H. Halldórsson.

Stefna Björns var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í júní 2020 en aðalmeðferð átti að hefjast í byrjun þessa mánaðar. Samkvæmt upplýsingum blaðsins barst sáttaboð frá Sorpu tveimur dögum áður en aðalmeðferð átti að hefjast.

Líf segir í samtali við Morgunblaðið að samkomulagið kveði á um að Björn fái greidd laun í sex mánuði til viðbótar við þá sex mánuði sem samningur hans hafi kveðið á um og hann þegar fengið greidda. Auk þess verði lögfræðikostnaður upp á 1,5 milljónir króna greiddur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert