„Næsti áratugur verður áratugur Reykjavíkur“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Þorsteinn

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að næsta áratuginn verði Reykjavík kjölfestan þegar kemur að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á landinu og verði líklega með um helming þeirrar eftirspurnar sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur spáð að verði húsnæðisþörf á komandi árum.

Á næstu tíu árum áformar Reykjavíkurborg að úthluta lóðum þar sem hægt verður að byggja 10.260 íbúðir. Stærstu úthlutanirnar eiga að koma árin 2022-2026, eða lóðir þar sem hægt verður að byggja 1.100-1.300 íbúðir árlega. Til viðbótar við þetta er gert ráð fyrir nokkrum fjölda íbúða á uppbyggingarreitum sem eru í eigu verktaka og fasteignaþróunarfélaga. Mbl.is greindi fyrst frá 10 ára planinu í gærkvöldi, en það var svo kynnt á fundi í Ráðhúsinu í morgun.

Á fundinum fór Dagur yfir hina ýmsu uppbyggingarreiti í borginni. Sagði hann að með þessum áformum myndi borgin verða leiðandi á þessu sviði. „Næsti áratugur verður áratugur Reykjavíkur,“ sagði hann við viðstadda.

Annað eins sem bætist við frá einkaaðilum næstu ár

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur áætlað að árleg þörf fyrir nýjar íbúðir hér á landi verði um 3.000-3.500 á ári næsta áratuginn. Meira þurfi að byggja fyrst um sinn til að mæta uppsafnaðri þörf. Dagur segir í samtali við mbl.is að lóðaúthlutunaráætlunin sé af þessum sökum framanþung. Hann bendir einnig á að þó að borgin sé að úthluta þessum fjölda sé auk þess umtalsverður fjöldi íbúða sem verði byggður á reitum séu í eigu verktaka og fasteignaþróunarfélaga. „Það gæti verið næstum því annað eins sem bætist við frá einkaaðilum,“ segir hann um næstu ár og vísar þar til þess að það gætu verið 3-5 þúsund íbúðir til viðbótar við þær sem úthluta á næstu þrjú til fimm árin. Þar er um að ræða þróunarreiti eins og Héðinsreitinn, Orkureitinn, Heklureit og Hlíðarendareiti.

Héðinsreitur í Vesturbæ Reykjavíkur.
Héðinsreitur í Vesturbæ Reykjavíkur. Ljósmynd/Sigurður Ólafur Sigurðsson

Samkvæmt tölum frá Reykjavíkur borg eru nú um 2.700 íbúðir í byggingu og þá er samþykkt deiliskipulag fyrir 3.100 til viðbótar. Það sem af er þessu ári hefur þó aðeins verið úthlutað lóðum fyrir um 450 íbúðir. Dagur viðurkennir að það sé lág tala, en að mun meira hafi komið árin á undan og sé fyrirhugað á komandi árum.

Á Héðinsreit er gert ráð fyrir mikilli íbúðabyggð.
Á Héðinsreit er gert ráð fyrir mikilli íbúðabyggð. Teikning/Arkþing-Nordic

Gætu verið að svara helmingi eftirspurnar á landinu

Eins og fyrr segir gerir borgin ráð fyrir að næstu ár verði lóðum fyrir 1.100-1.300 íbúðir úthlutað árlega og að ofan á það bætist uppbyggingarverkefni á lóðum sem þegar eru í einkaeigu. Dagur segir að miðað við þetta gætu um 2.000 íbúðir muni árlega koma á markaðinn í Reykjavík.  

„Reykjavík gæti verið að svara allt að helmingi af eftirspurn á landinu öllu ef fjármálastofnanir og verktakar ákveða að fara af stað. Það mun ekki standa á borginni í því,“ segir hann og bætir við: „Við erum með bæði svæði og lóðir til að mæta eftirspurn næstu ára.“ „Nú mun reyna á uppbyggingaraðila, hönnuði, verktaka og fjármálastofnanir til að tryggja eins hraðan og góðan framgang þessara verkefna og kostur er.“

Dagur gerði reyndar útlán lánastofnana að umtalsefni í framsögu sinni í dag og sagði að allir bankarnir hafi skrúfað fyrir lánveitingar eftir að faraldurinn fór af stað og að skortur íbúða núna mætti rekja til þeirrar ákvörðunar. Bæði Íslandsbanki og Landsbankinn hafa síðan sagt við mbl.is að engin slík ákvörðun hafi verið tekin og sagði Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, að þessi orð borgarstjóra væru í algjörri andstöðu við upplifun stjórnenda bankans um útlán í þessa grein.

Spilda gerir ráð fyrir mikilli uppbyggingu í Gufunesi meðfram klettaströndinni.
Spilda gerir ráð fyrir mikilli uppbyggingu í Gufunesi meðfram klettaströndinni. Teikning/JVST&Partners, Andersen & Sigurdsson og Felixx landscape architects

Dagur bakkaði ekkert með þessi orð sín í samtali við mbl.is eftir fundinn í morgun. „Bankarnir drógu í land árið 2019 því þeir spáðu að það væri offramboð í pípunum og að þetta væru íbúðir sem myndu ekki seljast nema á löngum tíma. Það reyndist einfaldlega rangt hjá þeim, að stærstum hluta vegna vaxtalækkunar Seðlabankans,“ segir hann. Eftirspurnin hafi nú tekið kröftuglega við sér og bankarnir hafi aukið útlán síðustu ársfjórðunga.

Ártúnshöfðinn stærsta svæðið

Eins og sjá má á meðfylgjandi töflu munu úthlutunarsvæðin dreifast nokkuð víða um borgina á næsta áratug. Stærsta úthlutunarsvæðið er Ártúnshöfði, en þar er á næsta áratug gert ráð fyrir 2.812 íbúðum sem verður úthlutað. Næst þar á eftir kemur Skerjafjörðurinn með 1.409 íbúðir og svo Gufunes, þar sem eftir á að úthluta lóðum undir 755 íbúðir og í Vatnsmýri og Hlíðarfæti þar sem áformað er að úthluta 442 íbúðum.

Úthlutunaráætlun Reykjavíkurborgar næsta áratuginn.
Úthlutunaráætlun Reykjavíkurborgar næsta áratuginn. Tafla/Reykjavíkurborg

Stærsti einstaki reiturinn er Vogur við Ártúnshöfða, en þar er gert ráð fyrir tæplega 1.600 íbúðum, en þær fara þó ekki í úthlutun fyrr en árið 2025 og síðar. Stærstu verkefni næstu tveggja ára eru Hlíðarfótur með um 400 íbúðir, fyrsta úthlutun í Skerjafirði með rúmlega 400 íbúðir og þriðji áfangi Bryggjuhverfis með tæplega 350 íbúðir.

Stærsta uppbyggingasvæði borgarinnar á komandi áratug verður á Ártúnshöfða.
Stærsta uppbyggingasvæði borgarinnar á komandi áratug verður á Ártúnshöfða. Ljósmynd/Sigurður Ólafur Sigurðsson

Með þessum úthlutunum segir Dagur að borgin ætli sér í leiðandi hlutverk varðandi íbúðauppbyggingu á komandi áratug. Segir hann að Reykjavík verði svo áfram með forystu eftir 10 ár þegar önnur sveitarfélög verði mörg nálægt því að verða uppiskroppa með land. „Það eru greinilega ekki gerðar neinar væntingar til annarra sveitarfélaga hvorki á höfuðborgarsvæðinu eða annarsstaðar að koma með þetta magn sem við erum að koma með inn á markaðinn síðustu ár og næstu ár. Við erum tilbúin að axla það hlutverk að vera kjölfestan í uppbyggingu húsnæðis næstu 10 ár.“

Þorpið vistfélag byggir upp íbúðir á Gufunesi. Þegar hefur verið …
Þorpið vistfélag byggir upp íbúðir á Gufunesi. Þegar hefur verið flutt inn í hluta íbúðanna. Ljósmynd/Sigurður Ólafur Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert