Vitað er til þess að þrír Íslendingar séu staddir í Eþíópíu, þar sem hörð átök milli stjórnarhers landsins og uppreisnarsveita hafa blossað upp.
Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir að ekkert hafi enn heyrst frá Íslendingunum. Hann segir að þessir þrír einstaklingar starfi ekki á vegum íslenskra stjórnvalda og því sé lítið vitað um veru þeirra í Eþíópíu eða hvar þeir eru nákvæmlega niður komnir.
Sveinn segir jafnframt að þeim tilmælum sé beint til Íslendinga á svæðinu, sem kunna að vera í vanda staddir, að hafa samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins í síma +354 545-0112.
Uppreisnarher þjóðarbrots frá Tigray-héraði í norðurhluta Eþíópíu er talinn líklegur til þess að ná mögulega höfuðborg landsins, Addis Ababa, á sitt vald á komandi vikum og mánuðum. Höfuðborgin er í landinu miðju.