167 innanlandssmit – aldrei fleiri greinst

mbl.is/Unnur Karen

167 kórónuveirusmit greindust innanlands í gær en um er að ræða mesta fjölda greindra innanlandssmita á einum degi frá upphafi faraldursins. 122 greindust utan sóttkvíar. 108 af þeim sem greindust í gær voru fullbólusettir við greiningu, þrír hálfbólusettir og 32 óbólusettir.

Ríkisstjórnin ræðir nú sóttvarnaaðgerðir innanlands sem mun væntanlega verða gripið til í því skyni að fækka daglegum smitum niður í 40 til 50. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur gefið það út að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir leggi til aðgerðir sem snúa að takmörkun á fjölda, afgreiðslutímum og grímunotkun.

Hlutfall jákvæðra sýna í hærri kantinum

Fyrri metfjöldi daglegra smita var 154 en svo mörg smit greindust 30. júlí síðastliðinn. 

144 smit greindust á miðvikudag. Nýgengi smita innanlands stendur nú í 345.

16 eru á sjúkrahúsi, þar af fimm á gjörgæslu. 

12 greindust smitaðir við landamærin. Öll smitin eru virk.

1.096 eru nú í einangrun, 1.790 í sóttkví og 274 í skimunarsóttkví. 

Hátt í 3.500 sýni voru tekin í gær. Hlutfall jákvæðra einkennasýna var 7,63%, hlutfall jákvæðra sýna í sóttkvíar- og handahófsskimun 3,75% en hlutfallið var 1,27% í landamæraskimun.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert