Banaslys varð norðan gatnamóta Kringlumýrarbrautar og Sæbrautar á níunda tímanum í morgun þegar rafmagnshlaupahjól og létt bifhjól rákust þar saman. Báðir ökumenn voru með hjálma þegar slysið varð. Þetta staðfestir Rafn Hilmar Guðmundsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Tilkynning um slysið barst klukkan 08:08, en myrkur og blautt var á vettvangi, að því er lögreglan greinir frá. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var það ökumaður rafmagnshlaupahjólsins sem lést en hinn slasaðist alvarlega.
Rafn segir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa nú rannsaka tildrög slyssins. Líklega er um að ræða fyrsta banaslysið sem verður hér á landi þar sem rafmagnshlaupahjól á í hlut, segir hann inntur eftir því.
„Ég man ekki eftir neinu öðru svona máli, allavega ekki á höfuðborgarsvæðinu,“ segir hann.
Ekki náðist í rannsóknarnefnd samgönguslysa við vinnslu fréttarinnar.