„Ég get aldrei droppað út“

„Ég er að reyna að endurskipuleggja líf mitt,“ segir Víkingur Heiðar Ólafsson sem sagði frá því í Dagmálum hvernig það er að vera klassískur píanóleikari í heimsklassa, hvernig leiðin lá þangað en ekki síst um hvernig það er að vera á stöðugum þeytingi um heiminn, í burtu frá fjölskyldunni.

Hann langar að breyta til, spila þéttar og hafa lengri tíma heima á milli. Það sé bæði mikilvægt listarinnar vegna, svo hann geti endurnýjað sig, og fyrir synina tvo sem eru fimm mánaða og tveggja og hálfs.

„Það er rosalega erfitt fyrir mig að gera þessar plötur og alla undirbúningsvinnuna og vera svo líka alltaf í flugvél og spila alla tónleikana og vera alltaf með móral yfir því að vera ekki nógu góður faðir og ekki nógu mikið á staðnum.“

Þegar hann kemur heim þá er fjölskyldan í fyrsta sæti en hann getur samt aldrei einbeitt sér algjörlega að föðurhlutverkinu.

„Ef þú ætlar að spila á þessum tónleikum þarftu að vera í ákveðnu líkamlegu formi sem kemur ekki nema með ótrúlega miklum tíma við hljóðfærið, fínstillingarnar eru bara þannig. Ég get aldrei droppað út, ég þarf alltaf að halda mér við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert