Árni Davíðsson, formaður Landssamtaka hjólreiðamanna, kallar eftir því að lögreglan sýni frumkvæði þegar komi að því að mæla hraða rafmagnsfarartækja á göngu- og hjólastígum. Þá vill hann að lögreglan taki slík tæki úr umferð þar sem búið er að taka hraðastýringar úr sambandi og þeim ekið of hratt á fyrrnefndum stígum. Þetta kom fram í máli hans á morgunfundi Vegagerðarinnar um hjólastíga.
Árni var að svara spurningu um aðskilda hjóla- og göngustíga og hvort það þyrfti jafnvel að gera sérstaka stíga fyrir þá sem færu mjög hratt. Árni sagðist ekki telja svo vera. Til væru stígar sem kallast hraðhjólastígar (e. cycle super highways), en það væru sérstaklega vel hannaðir hjólastígar. Hins vegar væri ekki gert ráð fyrir meiri hraða á slíkum stígum. Hann beindi hins vegar orðum sínum að lögreglunni varðandi lausn á þessu máli.
„Þessi tæki sem er búið að taka stýringarnar úr, eins og rafmagnshjól, rafhlaupahjól og létt bifhjól í flokki 1. Það er kannski kominn tími að lögreglan fari að sýna eitthvað frumkvæði að framfylgja lögum og mæla hraðann á þessum tækjum og taka þau úr umferð sem fara of hratt,“ sagði hann og bætti við: „25 km hraði er bara ágætur hraði á hjólastíg og við höfum ekki mikla ástæðu til að fara hraðar, vegna þess þessar framkvæmdir eru svo dýrar. Þau eiga bara heima á götunum ef þau ætla að fara yfir 25.“
Hraðakstur á rafmagnshlaupahjólum og öðrum rafmagnsfarartækjum hefur verið mikið í umræðunni síðustu daga og vikur, en í síðustu viku varð banaslys þar sem vegfarendur á rafmagnshlaupahjóli og rafmagnsvespu rákust saman.
Í erindi sínum á fundinum fór Árni í lengra máli yfir ýmiss atriði sem þyrfti að bæta þegar kemur að öryggi hjólandi. Nefndi hann meðal annars að gera þyrfti öryggisúttektir við bæði hönnun og framkvæmd hjóla- og gangstíga. Þá þyrfti einnig að leita álits hjólandi varðandi legu og hönnun stíganna og hlusta á álit þeirra. Tóku fulltrúar Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar undir þessi atriði og sögðu að Landssambandið yrði boðað á fund fljótlega.
Þá benti Árni á að ófullnægjandi eftirlit væri með framkvæmdum og benti til dæmis á nýleg dæmi frá Sæbraut og Kringlumýrarbraut, en þar var uppsetning merkinga og hjáleiða ábótavant. Þá varpaði hann einnig fram þeirri spurning hvort auka ætti umferðarmerkingar á stígum. Nefndi hann sem dæmi að hægri réttur gilti alltaf, en ætti að vera t.d. aðalbrautamerking í Fossvogsdal eða á öðrum stofnæðum. „Á skortur á þessum merkingum einhvern þátt í slysum sem verða,“ spurði hann. Tók hann fram að hann skyldi að fólk vildi ekki hafa „umferðarmerkjafrumskóg“ en að þetta væri eitthvað sem þyrfti að taka umræðu um.