Á öfugum vegarhelmingi á Bústaðavegi

Síðustu daga og vikur hefur talsverð umræða sprottið upp vegna rafhlaupahjóla í umferðinni, en í tvö skipti hefur mbl.is fengið send myndbönd sem sýna akstur slíkra tækja á stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu á um og yfir 70 km/klst hraða.

Þá varð banaslys í síðustu viku þegar rafhlaupahjól og létt bifhjól rákust saman á gangstíg norðan gatna­móta Kringlu­mýr­ar­braut­ar og Sæ­braut­ar. Ökumaður raf­skút­unn­ar lést og ökumaður bif­hjóls­ins slasaðist al­var­lega.

Slíkur hraðakstur er þó ekki eini glæfraaksturinn sem mbl.is hefur fengið sent myndskeið af. Þannig náðist úr mælaborðsmyndavél rétt fyrir miðnætti í gær myndband sem sýnir ungan rafhlaupahjólamann, sem er fyrir miðju myndar, fara upp Bústaðaveg frá Sprengisandi. Færir hann sig svo yfir á öfugan vegarhelming, þrátt fyrir að um einskonar blindhæð framundan sé að ræða.

Í öðru myndbandi sem mbl.is hefur undir höndum má sjá að sá sem er á rafskútunni fer alla leið upp að ljósunum og yfir þau á röngum vegarhelmingi.

Rétt er að taka fram að akstur rafhlaupahjóla er almennt bannaður á akvegum og á meira en 25 km/klst hraða. Þetta hafa bæði Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, og Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, ítrekað í samtölum við mbl.is að undanförnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert