Orka náttúrunnar hafði í dag betur í dómsmáli sem fyrirtækið höfðaði eftir að kærunefnd útboðsmála hafði ógilt útboð á svokölluðum hverfahleðslustöðvum fyrir rafmagnsbíla. Var það gert að kröfu Ísorku, samkeppnisaðila ON, sem taldi útboðið ekki hafa verið samkvæmt lögum. Þurfti ON í kjölfarið að slökkva á stöðvunum, en mun í kjölfar dómsins opna þær aftur í vikunni. Frá þessu greinir ON í tilkynningu.
Í dómi málsins kemur meðal annars fram að málsmeðferð kærunefndar útboðsmála hafi verið „verulegum annmörkum háð“. Kærunefndinni hafi borið að vísa málinu frá þar sem kröfur Ísorku hafi verið settar fram og seint og að samningsfjárhæð samningsins sem boðinn var út hafi ekki náð lágmarksviðmiði. Vegna þessa og með „tilliti til annarra annmarka á málsmeðferðinni“ féllst dómstóllinn því á að ógilda úrskurðinn.
Um er að ræða 156 götuhleðslustöðvar sem eru staðsettar víðs vegar um borgina. Orka náttúrunnar þurfti að rjúfa straum á stöðvarnar 28. júní, en málið fékk í kjölfarið hraðmeðferð fyrir héraðsdómi.
Reykjavíkurborg bauð út uppsetningu og rekstur götuhleðslna og tók tilboði frá ON sem bauð lægst í verkefnið. Úrskurðarnefnd útboðsmála komst síðan að þeirri niðurstöðu eftir kæru Ísorku að Reykjavíkurborg hefði átt að bjóða verkið út á Evrópska efnahagssvæðinu. Ekki var tekið undir önnur sjónarmið Ísorku sem þó voru fjölmörg. Samkvæmt niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar var ON hvorki heimilt að taka gjald fyrir afnot af götuhleðslum né að sérmerkja bílastæðin sem þær standa við.