Ný kirkja á næsta ári

Drög að nýrri kirkju í Grímsey.
Drög að nýrri kirkju í Grímsey. Tölvuteikning/Hjörleifur Stefánsson

Stefnt er að því að reisa nýja Miðgarðakirkju í Grímsey á næsta ári og helst vígja hana fyrir ársafmæli kirkjubrunans sem varð að kvöldi 21. september. Kirkjan gjöreyðilagðist og allir kirkjugripir.

„Söfnun fyrir nýrri kirkju gengur mjög vel,“ sagði Alfreð Garðarsson, formaður sóknarnefndar í Grímsey. „Grímseyingar skila góðri kveðju til allra og þakka kærlega fyrir ótrúlega góðan stuðning.“

Búið er að ráða Hjörleif Stefánsson arkitekt til að teikna nýju kirkjuna, en hann þekkir vel til gamalla kirkna. „Hjörleifur er búinn að koma til fundar við okkur tvisvar sinnum. Nýja kirkjan verður öðru vísi en sú gamla en vísar samt til hennar. Til dæmis verða svalir uppi í turninum eins og í gömlu kirkjunni. Eins ætlum við að nota fjóra krossa sem voru á hornum gömlu kirkjunnar. Þeir eru úr málmi og það er hægt að galvanísera þá og laga,“ sagði Alfreð. „Við ætlum að byrja að byggja í vor. Þá ætlum við að hreinsa það sem eftir er af grunninum og smíða nýjan grunn. Svo fáum við byggingameistara og hefjum smíðina og helst klárum hana næsta sumar.“

Nýja kirkjan verður úr timbri. Alfreð sagði áhuga á að nýta rekavið að einhverju leyti með vísan til sögunnar. Kirkjubyggingin verður stærri en gamla kirkjan því nú verður reist skrúðhús og gert ráð fyrir snyrtingum sem ekki voru í gömlu kirkjunni. Húsið verður 80-90 fermetrar og er áætlað að kirkjan geti kostað 80-100 milljónir króna gróft áætlað.

Arna Björg Bjarnadóttir frá verkefninu Glæðum Grímsey ætlar að aðstoða Grímseyinga við að afla styrkja og fjármagns í bygginguna. Reikningsupplýsingar sóknarinnar eru banki 565-04-250731 og kt. 460269-2539. En hvernig verður helgihald um hátíðarnar?

„Við stefnum að jólamessu í félagsheimilinu á milli jóla og nýárs eins og undanfarin ár. Séra Magnús G. Gunnarsson og séra Oddur Bjarni Þorkelsson á Dalvík sjá um þetta fyrir okkur,“ sagði Alfreð.

Góður afli, erfiðar gæftir

Tveir bátar frá Grímsey hafa undanfarið veitt ufsa í net. Gæftir hafa verið erfiðar en fiskast vel þegar hefur gefið á sjó. Aflinn hefur verið slægður í Grímsey og sendur ísaður í land, nema þá daga sem ferjan kemur. Þá er ufsinn sendur óslægður. „Það borgar sig ekki að verka í saltfisk, eins og við höfum alltaf gert. Það er það gott verð á mörkuðunum,“ sagði Alfreð. Netin eru aldrei lögð nema veður sé daginn eftir til að draga svo aflinn verði aldrei nema einnar náttar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka