Krabbameinsfélag Íslands hefur náð sátt við konu sem fékk ranga greiningu í kjölfar leghálsskimunar vegna mistaka hjá félaginu. Konan er nú með ólæknandi krabbamein sem hægt hefði verið að bregðast við hefði hún greinst fyrr.
Hún mun fá tugi milljóna króna í bætur frá félaginu vegna mistakanna. Sævar Þór Jónsson lögmaður konunnar segir fleiri mál vera á rannsóknarstigi.
Sátt hefur einungis náðst í þessu eina máli enn sem komið er.
„Það eru fleiri mál í gangi en þau eru á rannsóknarstigi, hjá landlækni, í gagnaöflun og fleira,“ segir Sævar Þór.
„Það er stutt í eitthvað af þessum málum en þetta er bara í ferli. Þetta eru mjög mörg mál, þau eru öll mjög ólík; sum varða brjóstaskimanir og önnur varða leghálsskimanir,“ segir Sævar Þór.
Mál konunnar sem hefur nú náð sátt við Krabbameinsfélagið varð til þess að fleiri þúsund sýni sem tekin höfðu verið hjá félaginu voru endurskoðuð og fleiri en tvö hundruð konur voru kallaðar til frekari skoðunar.