Áherslumunur eðlilegur hjá stórum flokki

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavík segir áherslumun …
Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavík segir áherslumun í einstaka málum eðlilegan í stórum flokki. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, segist ekki sammála þeirri fullyrðingu að Sjálfstæðisflokkurinn sé þríklofinn. Segir hann ljóst að áherslumunur sé hjá stórum flokki en bendir á að borgarstjórnarhópurinn sé að langmestu leyti samstiga.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, lét þau ummæli falla í Silfrinu í morgun að Sjálfstæðisflokkurinn væri „tví- ef ekki þríklofinn flokkur“ og ekki væri ljóst fyrir hvað hann stæði. Eyþór gefur lítið fyrir þessi ummæli Dóru.

Ekki allir fylgt meginlínunni

„Það sem hefur klofnað á kjörtímabilinu er þá aðallega brot úr meirihlutanum. Einn Pírati hættir og svo tveir úr Samfylkingu en á sama tíma sjáum við fyrrum varaborgarfulltrúa Miðflokks ganga til liðs við okkur, þannig við í raun stækkum,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Hann segir rétt að í stórum flokki geti verið áherslumunur í einstaka málum og vísar hann þá sérstaklega til samgöngumála og málefni Laugavegar. „Þessi mál hafa verið með þeim hætti að ekki allir í okkar hópi hafi fylgt meginlínunni. Það hefur komið upp að einn og einstaka sinnum tveir borgarfulltrúar greiði ekki atkvæði í samræmi við aðra borgarfulltrúa flokksins. Það er bara staðreynd.“

Sama sinnis og kjósendur flokksins

Hann segir þó ljóst að slíkt hafi gerst hjá borgarfulltrúum meirihlutans. „Þar hafa borgarfulltrúar einnig setið hjá í einstaka málum.“

Spurður út í fullyrðingu Dóru þess efnis að óljóst sé hvað flokkurinn stendur fyrir segir hann:

„Það er alrangt hjá henni. Langstærstur hluti hópsins er algjörlega samstiga og það sem meira er þá eru sjálfstæðismenn í borginni sama sinnis og sjálfstæðismenn í borgarstjórn. Það skiptir miklu máli að stærstur hluti hópsins og kjósendur hans eru sammála.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert