Fór ránshendi um búningsklefa ungmenna

Krakkarnir voru á æfingu í Laugardalshöll þegar símunum var stolið.
Krakkarnir voru á æfingu í Laugardalshöll þegar símunum var stolið. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Iðkendur í 13-15 ára hópi ÍR í frjálsum íþróttum urðu fyrir því á miðvikudag að tólf farsímum var stolið úr búningsklefa þeirra á meðan hópurinn var á æfingu í Laugardalshöll.

Þjálfari hópsins segist aldrei hafa lent í þessu á sex ára þjálfaraferli sínum.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér tilkynningu á föstudag þess efnis að símaþjófnaður í búningsklefum íþróttahúsa væri að færast í aukana. Kom tilkynningin því tveimur dögum eftir að unglingarnir í ÍR lentu í þjófnaðinum.

Nærri allir símarnir horfnir

Júlía Mekkín Guðjónsdóttir æfir í hópnum og ræddi við mbl.is um atvikið. „Ég kem út af æfingunni og þá segir ein stelpa að hún finni ekki símann sinn og spyr hvort við getum hringt í hann. Svo finnst hann ekki og þá taka fleiri eftir því að síminn þeirra sé horfinn líka.“

Júlía segir að hópurinn hafi látið þjálfarann sinn vita af þessu. Hann ræddi þá við húsvörð og lét hann vita af því að nærri allir símarnir væru horfnir.

„Svo kom lögreglan og tók skýrslu af okkur öllum. En þetta voru tólf símar í heildina. Það voru samt einhverjir krakkar með símann sinn lengst ofan í töskunni sinni og þeir voru ekki teknir.“

Júlía segir að staðsetning hafi fundist á einum símanum og lögreglan hafi því sent bíl á svæðið þar sem staðsetningin fannst. Þó hafi ekkert komið út úr því eftir því sem hún best veit.

Hún segir alla hafa verið afskaplega leiða vegna málsins og að tár hafi fallið, enda dýrt spaug að missa símann í hendur þjófa.

Ertu vongóð um að fá símann þinn aftur?

„Ég held að flestir telji það mjög ólíklegt. Ég held að minnsta kosti að við fáum ekki símana aftur.“

Júlía Mekkín segist ekki vongóð að fá símann sinn aftur.
Júlía Mekkín segist ekki vongóð að fá símann sinn aftur.

Nær að læðast með fram veggjum

Óðinn Björn Þorsteinsson, þjálfari hópsins, segir í samtali við mbl.is að hann hafi ekki lent í sambærilegu atviki áður. Vöktun í Laugardalshöll sé með sama hætti og víðast, húsvörður sjái um það.

„Svo er bara einn sem nær að læðast með fram veggjum og smygla sér fram hjá öllum.“

Hann segir eðlilegt að krakkarnir hafi verið miður sín og málið sé nú á borði lögreglu sem rannsaki málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert