Jólin komin hjá verslunareigendum í miðbæ

Jólastemming einkennir miðbæinn og gæti vel farið svo að jólasveinar …
Jólastemming einkennir miðbæinn og gæti vel farið svo að jólasveinar geri sér ferð á Laugaveg. mbl.is/Árni Sæberg

Jólastemning einkennir miðbæinn og segja verslunareigendurnir Sindri Snær Jensson, eigandi Húrra Reykjavík, og Kormákur Geirharðsson, annar eigenda Kormáks og Skjaldar, að jólatörnin sé svo sannarlega hafin.

„Já þetta er blessunarlega komið á fullt skrið. Sér í lagi tók þetta við sér undanfarna vikuna en mér fannst þetta fara aðeins hægt af stað, en ég veit ekki hvort það sé vegna þessara takmarkana eða hvað,“ segir Sindri í samtali við mbl.is.

Hann segir ljóst að takmarkanir yfirvalda í sóttvarnaskyni hafi áhrif á reksturinn. Þegar takmarkanir séu í gildi er minna um viðburði eins og jólaboð og partý og „því færri sem kaupa sér fatnað fyrir ákveðin tilefni“.

Sindri Snær Jensson t.v. og Jón Davíð Davíðsson eru eigendur …
Sindri Snær Jensson t.v. og Jón Davíð Davíðsson eru eigendur Húrra Reykjavíkur.

Taka ekki þátt í afsláttardögum

Hann segir þá að netverslun og svokallaðir afsláttardagar á borð við svartan föstudag hafi klárlega áhrif á Húrra Reykjavík. En verslunin tekur ekki þátt í slíkum afsláttardögum og segir Sindri ástæðuna vera að hann telji slíka daga ýta undir ofneyslu og óheilbrigða viðskiptahætti.

„Við erum bara með eðlilega álagningu og útsölur tvisvar á ári. En þetta hefur klárlega áhrif á okkur enda erfitt að eiga við það að margir bjóði upp á afsláttarverð oft yfir árið.“

Húrra mun lengja opnunartímann til klukkan tíu á kvöldin frá og með miðvikudeginum og segir hann að auka þurfi mönnun á vöktum. Á bilinu 12-14 manns verði í afgreiðslu þegar mest verður að gera.

Þá segir hann algengustu viðskiptavinina þessu dægrin vera foreldra, ömmur og afa og frænkur í jólagjafaleit.

„Við leggjum mikið upp úr persónulegri og góðri þjónustu og því erum við heppin að hjá okkur starfar stór hópur af góðu fólki sem hjálpar fólki að finna réttu gjafirnar.“

Kormákur Geirharðsson, annar eigenda Herrafataverslunar Kormáks og Skjaldar.
Kormákur Geirharðsson, annar eigenda Herrafataverslunar Kormáks og Skjaldar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Eykst jafnt og þétt

Kormákur Geirharðsson, annar eigenda herrafataverslunarinnar Kormákur og Skjöldur, segir að umferðin um verslunina aukist „jafnt og þétt“ og hafi gert það frá miðjum nóvember.

Spurður hvort farið sé að gæta jólastemmingar í búðinni segir hann: „Já, bæði í búðinni sem og í bænum öllum. Það hellist yfir fólk jólaandi þegar það verslar gjafir.“

Segir hann þá mikið um að fólk sé að versla gjafir en þó líka töluvert af fólki að kaupa sér ný jólaföt.

Hann segir ekki ákveðið hvenær verslunin muni lengja opnunartímann vegna anna. Það hafi sýnt sig undanfarin ár að verslanir séu sífellt að reyna að færa þá dagsetningu nær jólunum.

„Fólk er ekki alveg komið í þann jólagír að vera að fara niður í bæ á kvöldin og versla gjafir. Það kemur líklega á næstu dögum samt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert