Segir ríkið geta sparað milljarða

Sigríður Á. Andersen, fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir ríkið geta náð …
Sigríður Á. Andersen, fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir ríkið geta náð sama árangri með 5% af núverandi kostnaði. mbl/Arnþór Birkisson

Sigríður Á. Andersen, lögmaður og fyrrum alþingismaður, segir skattgreiðendur greiða tvítugfalt meira fyrir loftslagsaðgerðir heldur en þörf er á. Með áherslu á skógrækt og endurheimt votlendis væri hægt að kolefnisjafna sama magn af koltvísýrings fyrir 5% af núverandi kostnaði.

Í pistli eftir Sigríði sem birtist á heimasíðu hennar segir hún stjórnvöld ekki vita hvað þau fá fyrir ýmis veruleg útgjöld sín til loftslagsmála, þetta hafi komið fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn hennar á þinginu nú í haust. Þar með sé ekki hægt að meta hvort þær leiðir sem ríkið kýs að fara eftir séu þær hagkvæmustu og árangursríkustu sem eru í boði.

Hún skoðar í pistlinum tvær leiðir sem stjórnvöld hafa farið undanfarinn áratug, Skattaívilnun rafbíla og ívilnanir vegna íblöndunar lífeldsneytis, og ber þær svo saman við tvær aðrar leiðir sem standa til boða á almennum markaði, sem eru kolefnisjöfnun með skógrækt sem fyrirtækið Kolviður býður upp á og svo kolefnisjöfnun með endurheimt votlendis.

Tæplega fimmtíu þúsund krónur á tonnið

Sigríður reiknar saman að meðal bensínbíll losi um 42 tonn af koltvísýring á 15 ára líftíma sínum á götunni. Notast hún við losunarstuðla umhverfisstofnunar við þessa útreikninga. Bendir hún þá á ýmsar skattaívilnanir sem ríkið veitir þeim sem kaupa rafbíl.

Er það mat hennar að ef slíkar ívilnanir séu um tvær milljónir á rafbíl, sem hún segir hóflegt mat, þá láti ríkið af hendi um 48 þúsund krónur fyrir jöfnun á hverju tonni koltvísýrings. Þá kemur fram að í greiningu hennar sé ekki tekið tillit til þess hve mikla orkunotkun og útblástur fari í framleiðslu rafbíla.

Því næst skoðar hún ívilnanir vegna íblöndunar lífeldsneytis og bendir hún á að ríkið hafi veitt 2,4 milljarða í þennan skattaafslátt á síðasta ári. Samkvæmt reglugerð um gæði eldsneytis á íblöndun að draga úr losun frá vegasamgöngum og vinnuvélum um 6%. Heildarlosun fyrrnefndra flokka er um 1 milljón tonna á ári svo samdrátturinn gæti verið nærri 60 þúsund tonnum. Kostnaðurinn fyrir hvert tonn kolefnisjöfnunar er því 40 þúsund krónur samkvæmt reikningum Sigríðar.

Tvö þúsund krónur á tonnið

Kolviður býður kolefnisjöfnun með skógrækt og kostar kolefnisjöfnun á einu tonni koltvísýrings ekki nema 2.200 krónur.

Votlendissjóður býður síðan upp á kolefnisjöfnun með endurheimt votlendis en hjá þeim kostar kolefnisjöfnun á einu tonni 2.000 krónur.

Að endingu bendir Sigríður því á að samkvæmt hennar útreikningum hafi stjórnvöld valið „mjög dýrar leiðir til að fást við loftslagsmálin.“ Helstu aðgerðir ríkisins séu því tvítugfalt dýrari en skógrækt og endurheimt votlendis. Ríkið gæti náð sama árangri fyrir um 370 milljónir í stað þeirra 7,4 milljarða sem það eyðir á ári í skattaívilnanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert