Embætti Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu fjársvelt

mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Embætti Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þjónar 64% landsmanna en fær 39% þeirra fjárveitinga sem markaðar eru sýslumönnum í fjárlögum.

Í niðurstöðum stjórnsýsluúttektar ríkisendurskoðunar á embættinu segir að af þessum sökum telur embættið sig vera fjársvelt og hefur það reglulega vakið athygli dómsmálaráðuneytis á þeirri stöðu við gerð fjárhagsáætlana og í greinargerðum til ráðuneytis.

Þá er hlutfall starfsmanna hjá embættinu á hverja 10.000 íbúa töluvert lægra en hjá öðrum embættum. 

„Talsverð álagsmerki má finna hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Starfsánægja mælist lág í samanburði við sambærilegar stofnanir og töluvert er um fjarvistir vegna veikinda,“ segir í úttektinni. 

Meta þarf skiptingu fjárveitinga milli sýslumannsembætta

Embættið er nær eingöngu fjármagnað með framlagi úr ríkissjóði en um 82% framlagsins renna til greiðslu launa og tæp 10% fara í húsnæðiskostnað.

„Ríkisendurskoðun bendir á að fara þurfi yfir verkefni og skyldur Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og meta mannaflaþörf, m.a. í ljósi starfseminnar á landsvísu og skiptingu fjárveitinga milli sýslumannsembætta. “

Dómsmálaráðuneytið skortir skýringar

Þá segir að við úttektina kom í ljós að dómsmálaráðuneyti hafi á undanförnum árum fundist skorta nægjanlegar skýringar og svör um skipulag og rekstur embættisins.

„Þannig hefur ráðuneytið ekki talið sig fá fullnægjandi svör varðandi ráðstöfun fjármuna sem embættinu hefur verið úthlutað og brugðist við með því að láta gera sérstaka athugun á skilvirkni, starfsemi og verkefnaálagi hjá embættinu,“ segir í úttektinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert