Fundaði með Swerec og krafðist svara

Um 1.300 til 1.400 tonn af plasti fara frá Íslandi …
Um 1.300 til 1.400 tonn af plasti fara frá Íslandi á þessu ári, að sögn Magnúsar. mbl.is/Stefán Einar

Stjórn Úrvinnslusjóðs ætlar að senda bréf til Swerec þar sem þess verður krafist að sænska fyrirtækið bregðist við fregnum um að íslenskt plast hafi ekki komist í réttan farveg eftir að fyrirtækið tók við því.

Magnús Jóhannesson, stjórnarformaður Úrvinnslusjóðs, segir að gengið verði frá bréfinu á næsta stjórnarfundi sem verður á fimmtudaginn það síðan sent út í kjölfarið.

Greint var fyrst frá mál­inu í ít­ar­legri grein Stund­ar­inn­ar þar sem blaðamaður þeirra ásamt ljós­mynd­ara fann ís­lenskt plast í því sem líkja má við haf­sjó af plasti í vöru­skemmu í Suður-Svíþjóð. Þegar höfðu ís­lensk­ir neyt­end­ur og fyr­ir­tæki borgað fyr­ir end­ur­vinnslu á plast­inu en fyr­ir­tækið sem tók við því, Sw­erec, kom því ekki í rétt­an far­veg.

Engin svör

Magnús fundaði í gær með framkvæmdastjóra Swerec vegna málsins og segist hafa gert honum grein fyrir því að Swerec þyrfti að bregðast við. Fyrirtækið þurfi að sjá til þess að sá hluti plasts frá Íslandi sem hefur verið geymt í vöruhúsi þess fari í þann farveg sem íslensku þjónustuaðilarnir Terra og Íslenska gámafélagið sömdu um við það á sínum tíma.

Aðspurður segir hann framkvæmdastjóra Swerec ekki hafa útskýrt hvers vegna plastið safnaðist upp í vöruhúsinu en því verður svarað bréflega, að ósk Úrvinnslusjóðs.

Hugsanlegt er að Úrvinnslusjóður sendi mann til Svíþjóðar til að fá frekari upplýsingar um geymslu plastsins. 

Plast er gríðarlega mengandi fyrir umhverfi og lífríki.
Plast er gríðarlega mengandi fyrir umhverfi og lífríki. AFP

Ferlið er þannig að plastið sem er endurvinnanlegt er fyrst flokkað frá og síðan fer afgangurinn í orkuvinnslu. Magnús átti fund með fulltrúum Terra og Íslenska gámafélagsins sem sendu plastið út og telja þeir að Svíarnir hafi verið búnir að flokka plastið sem sást í vöruhúsinu frá sem þarf að fara í orkuvinnslu. Ekki hafi því verið um að ræða allt plastið sem hefur farið til Svíþjóðar á þessu ári.

Hætt að senda plast til Svíþjóðar

Spurður segir Magnús um 1.300 til 1.400 tonn af plasti fara frá Íslandi á þessu ári. Upp á síðkastið hafi Terra og Íslenska gámafélagið sent megnið af því til Þýskalands í stað Svíþjóðar. „Mér er sagt að það sé í mjög góðum farvegi,” segir hann um plastið sem er sent þangað. Á vefsíðu Terra kemur fram að fyrirtækið eigi engin viðskipti við Swerec í dag. Frá miðju ári 2020 hafi Terra flutt allt plast til Prezero í Þýskalandi, Peute Recycling í Hollandi og Pure North í Hveragerði.

Gámasvæði Terra á Akureyri.
Gámasvæði Terra á Akureyri. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Samningar endurskoðaðir

Inntur eftir því hvort Úrvinnslusjóður ætli að breyta sínum vinnubrögðum þegar kemur að eftirliti með plasti segir Magnús heilmiklar breytingar vera í farvatninu. Lögum hafi verið breytt síðasta vor þess efnis að Úrvinnslusjóður stuðli að hringrásarhagkerfi á Íslandi.

„Við erum að undirbúa það núna. Við munum endurskoða bæði þessa samninga sem við höfum við þjónustuaðilana og ráðstöfunaraðilana. Það er mikilvægt að hafa þennan rekjanleika á hreinu og það er alveg ljóst að við munum gera meiri kröfur um upplýsingagjöf til okkar,” segir hann. Einnig kemur til greina að fá þriðja aðila til að hafa eftirlit með þeim sem tekur við plastinu Hann segir stjórnina ætla að ræða hvort áfram verði starfað með Swerec.

Ábyrgðin hjá Svíunum

Spurður segir Magnús ábyrgðina í málinu liggja hjá Svíunum. Þjónustuaðilarnir hér heima hafi sent plastið út í góðri trú og á þessum tíma hafi Úrvinnslusjóður ekki haft ástæðu til að vantreysta fyrirtækinu.

Hann bendir á að íslensku þjónustuaðilarnir hafi séð um að greiða Swerec fyrir móttökuna. Úrvinnslusjóður sé aldrei í beinum viðskiptum við erlendu aðilana. „Sumir halda að Úrvinnslusjóður eigi þetta plast en það er alls ekki þannig. Hlutverk Úrvinnslusjóðs hans er fyrst og fremst að vera fjárhagslegur hvati til að koma þessum úrgangi í eðlilegan farveg, en auðvitað þarf að það vera tryggt að það fari í eðlilegan farveg, ” segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert