Óvíst hvaða úrræði munu áfram standa til boða

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Niðurstöður úr greiningu á stöðu ferðaþjónustunnar verður tilbúin á mánudaginn í næstu viku og vonar ferðamálaráðherra að hægt verði að kynna þær fyrir ríkisstjórninni á þriðjudag. Þá mun ráðherra funda með forsvarsmönnum veitingahúsa á fimmtudaginn í þessari viku.

Í samtali við mbl.is í síðustu viku sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menn­ing­armálaráðherra, að búið væri að óska eftir viðbótargreiningu á stöðu ferðaþjónustunnar vegna heimsfaraldursins.

Um er að ræða heildstæða greiningu á stöðu ferðaþjónustunnar hér á landi þar sem meðal annars verður skoðað hvaða úrræði hafa gengið vel, hvaða breytingar hafa átt sér stað milli ára, hvernig almenn þróun hefur verið í þessum geira undanfarið ár og hvort nýr fasi hafi tekið við.

„Þetta er framhaldsgreining á KPMG greiningunni sem við höfum verið að styðjast við. Í raun og veru felur hún í sér hvar ferðaþjónustan okkar er stödd í þessum heimsfaraldri og hverjar horfurnar eru. [...] Hún verður tilbúin á mánudag og ég fæ kynningu á henni í síðasta lagi seinnipart þriðjudagsmorgunn,“ segir Lilja Dögg.

Mikilvægt að markaðsstarf haldi áfram

Bjarn­heiður Halls­dótt­ir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, gagnrýndi á dögunum fjárútlát til ferðaþjónustunnar í nýju fjárlagafrumvarpi en þar kemur fram að útgjöld ríkisins muni dragast saman um hálfan milljarð á næsta ári.

Þótti Bjarnheiði enn ekki tímabært að draga úr þeim stuðningi sem ferðaþjónustan hefur fengið í gegnum heimsfaraldurinn enda væri hann ekki yfirstaðinn. Þá þyrfti nauðsynlega að auka fjármagn í markaðsátak ef að markmiðið væri að fá 1,4 milljónir ferðamanna til landsins á næsta ári.

Í samtali við mbl.is segir Lilja mikilvægt að haldið verði áfram með markaðsstarfið. Hún stendur þó ekki klár á því hvaða úrræði það eru sem að munu halda velli en skiptar skoðanir eru uppi í þeim málum. 

Fundar á morgun um stöðu veitingahúsa

Á fimmtudaginn mun Lilja funda með forsvarsmönnum veitingahúsa en faraldurinn hefur haft víðtæk áhrif á rekstur þeirra. 

Þar verða ýmis atriði rædd en Lilja segir stöðu þeirra ekki síður snúna í ljósi þess að gengi rekstursins í þeim geira hafi ekki einungis verið háð boðum og bönnum ríkisstjórnar í faraldrinum heldur hafi almenn tilmæli til almennings og smittíðni einnig haft mikil áhrif. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert