Thelma Marín Jónsdóttir, sem lagði í göngu upp á Helgafell í Hafnarfirði á mánudagsmorguninn síðastliðinn, rak upp stór augu þegar hún kom upp á topp fellsins og sá þar rafmagnshlaupahjól sem lá eitt og yfirgefið. „Í fyrstu hugsaði ég að þarna væri um mjög metnaðarfullan brandara að ræða,“ segir Thelma í samtali við mbl.is.
Þótt viðkomandi hafi vissulega sýnt mikinn metnað með því að rogast með hjólið nokkra kílómetra upp fellið hafi hann greinilega ekki skeytt mikið um fyrirtækið sem leigir það út og þeirri þjónustu sem það veitir, að sögn Thelmu, en hjólið umrædda er frá rafmagnshlaupahjólaleigunni Hopp.
„Næsta sem ég hugsaði var hvað ungdómurinn getur verið skeytingarlaus og ruglaður. Auðvitað búin að ákveða að þetta hafi verið unglingar, en kannski var þetta jólasveinn eða tvær vinkonur komnar á eftirlaun bara í góðu sprelli. Hver veit?,“ segir Thelma.
Spurður segir Eyþór Máni Steinarsson, framkvæmdastjóri Hopp ehf., afar sjaldgæft að rafmagnshlaupahjól frá fyrirtækinu týnist, hvað þá einhverstaðar lengst uppi á fjöllum.
„Vissulega getur þó allt mögulegt gerst þegar þessi hjól eru að fara mörg þúsund ferðir á dag en ég hef ekki heyrt af þessu hjóli uppi á Helgafelli né séð myndina af því,“ segir hann og skellir upp úr.
Hopp var fyrsta fyrirtækið til að setja flota af rafmagnshlaupahjólum í útleigu hér á landi árið 2019 en síðan þá hafa þau orðið sífellt meira áberandi í umferðinni. Að sögn Eyþórs eru nú 1.400 rafmagnshlaupahjól í umferð á Íslandi, þar af 1.000 í Reykjavík.
Hjólin eiga auðveldlega að endast í allt að þrjú ár og eru fyrstu hjólin sem Hopp setti á göturnar árið 2019 enn við „góða heilsu“, segir Eyþór inntur eftir því.
„Á þeim tímapunkti eru þau búin að fara fleiri þúsund kílómetra, oft ígildi margra hringferða um landið og hafa því sinnt tilgangi sínum mjög vel.“
Þegar dagar hjólanna eru taldir sé svo reynt að farga þeim á eins ábyrgan hátt og hægt er.
„Í raun og veru þýðir það bara að við pörtum hjólin. Þá notum við þá varahluti sem fást úr hjólunum og virka enn í önnur hjól og gerum við þá varahluti sem hægt er að gera við. Þegar það er ekki hægt tökum við þá í sundur og skilum þeim í endurvinnslu. Álið sendum við í álbræðslu, ruslið á réttan stað hjá Sorpu og göngum frá öllu á sinn hátt.“
Eyþór segir flesta hluta hjólanna verðmæta og að hægt sé að endurvinna þá alla hér á landi nema einn en það eru batterí hjólanna.
„Þótt þau séu vel endurvinnanleg eru bara ekki innviðir fyrir það hér á Íslandi. Það er hins vegar fyrirtæki sem tekur við þessum batteríum og sendir eitthvað annað þar sem þau eru gerð endurvinnanleg. Það hefur verið mikið í umræðunni hvort það eigi að opna einhverja endurvinnslustöð fyrir batterí á Íslandi eða ekki. Við sjáum bara hvernig það þróast.“
Inntur eftir því segir Eyþór afar sjaldgæft að rafmagnshlaupahjól frá Hopp skemmist. Þau hjól sem skemmist séu allavega það fá að forsvarsmenn fyrirtækisins þyki það ekki áhyggjuefni.
„Skemmd hjól er líka mjög afstætt hugtak. Ef við erum að tala um hjól sem bila þá telja þau hundruði því við erum stanslaust að gera við hjólin okkar til að viðhalda þeim, því við viljum að þau endist. Við gerum líka oft fyrirbyggjandi viðgerðir á þeim til að passa að þau séu fullkomlega örugg úti á götunum,“ segir hann.
„Svo þarf svo mikið til að skemma svona hjól. Ef manneskja dettur á svona hjóli þá er hjólið lítið að fara líða fyrir það. Manneskjan er mun líklegri til að meiða sig af því að detta.“
Það hafi þó nokkrum sinnum gerst að fólk reyni viljandi að skemma hjólin enda séu alltaf gerðar tilraunir til skemmdarverka á hlutum sem standa opnir öllum úti á götu, að sögn Eyþórs.
„Við höfum lent í því kannski tvisvar til þrisvar sinnum að hjól eyðilagðist það mikið að það var ekki hægt að gera við það. Eitt hjól varð fyrir trukki og beyglaðist svo mikið eftir það að við nánast þekktum það ekki lengur. Svo lenti eitt í mýri og var búið að vera liggja þar í margar vikur áður en það fannst. Það ryðgaði allt sem gat ryðgað í því hjóli og allt skemmst sem gat skemmst. Svo var einu hjóli hent fram af svölum úr mikilli hæð. Við erum að tala um svona absúrd skaða sem er ekki afturkræfur. Þetta eru þó það fá tilfelli að ég get nánast talið þau á annarri hendi.“