Siðareglur gefi tilefni til „víðra túlkana“

Bergsveinn Birgisson og Ásgeir Jónsson.
Bergsveinn Birgisson og Ásgeir Jónsson. Samsett mynd

Ekki er ljóst hvers vegna siðanefnd Háskóla Íslands ákvað að taka mál Bergsveins Birgissonar og Ásgeirs Jónssonar fyrir en svo virðist sem hvorugur þeirra hafi neina tengingu við skólann í dag og að fólk sé sammála um að bækurnar sem deilt er um í málinu séu ekki fræðibækur.

Taka við erindum frá aðilum utan Háskólans

Inntur skýringa á þessu vísar Skúli Skúlason, formaður siðanefndar Háskóla Íslands, í siðareglur nefndarinnar og þær útskýringar sem þeim fylgja.

„Allar þessar forsendur fyrir ákvarðanatöku og túlkun eru útskýrðar vel þar,“ segir hann.

Í 7.1. grein siðareglna Háskóla Íslands, undir „Viðbrögð við háttsemi og erindum“, segir að ef starfsmaður, nemandi eða aðrir verði þess áskynja að tiltekin háttsemi stríði gegn siðareglum, sé rétt að vekja athygli yfirmanns eða trúnaðarmanns á því eða vísa erindinu til siðanefndar skólans.

Í 7.7. grein segir þó einnig að siðanefnd taki við erindum frá aðilum bæði innan og utan Háskólans en að hún taki ekki mál upp að eigin frumkvæði.

Þessar forsendur gefi tilefni til tiltölulega víðra túlkana, að sögn Skúla.

Beri þó að vísa utanaðkomandi erindum frá

Taki siðanefnd erindi til efnislegrar meðferðar, líkt og hún hefur nú gert með mál Bergsveins og Ásgeirs, veiti nefndin álit um hvort siðareglur Háskólans hafi verið brotnar, að því er greint frá í siðareglunum.

„Við erum einfaldlega bara að vinna vinnuna okkar,“ segir Skúli.

Samkvæmt siðareglunum mæli nefndin ekki fyrir um viðurlög við brotum á siðareglum, en taki afstöðu til alvarleika brotsins og hvort um endurtekið brot hafi verið að ræða.

Sé álit siðanefndar sú að háttsemi sem um ræðir feli í sér brot á siðareglum vísi nefndin erindinu til rektors sem lögum samkvæmt eigi að grípa til viðeigandi ráðstafana.

Í reglunum segir þó að ef um sé að ræða ágreining eða brot á lagareglum sem heyri undir aðila utan Háskólans, beri nefndinni að vísa erindinu frá.

Fyrst þurfi þó að meta hvort aðrar reglur eigi við málið, að sögn Skúla.

„Þegar kemur að tilvísun til almennra dómsreglna eða eitthvað í þá áttina, eins og gæti átt við í þessu umrædda máli Bergsveins og Ásgeirs, þá eru eiginlega ekki til nein dæmi um að slíkum málum hafi verið vísað frá á þeim forsendum.“

Mátu svo að þetta væri „eðlilegur farvegur“

Áður en nefndin gæti tekið ákvörðun um það hvort málið hlyti efnislega umfjöllun hjá nefndinni þyrfti hún fyrst að leggja mat á það hvort Ásgeir heyrði enn undir háskólann, að því er Skúli greindi frá í samtali við mbl.is 13. desember síðastliðinn, en Ásgeir starfaði við hagfræðideild Háskóla Íslands frá árinu 2004 og var þar deildarforseti frá árinu 2015. Hann tók svo við embætti seðlabankastjóra 20. ágúst 2019.

Spurður segist Skúli ekki vita hvort einhver tímamörk gildi við mati á þessu atriði. Hann þekki sögu siðanefndar ekki nógu vel til að svara því enda hafi hann sjálfur aðeins setið tvö ár í nefndinni.

„En miðað við þá reynslu sem við höfum þá er svarið raunverulega bara það að þetta sé mat nefndarinnar. Við erum búin að fara yfir þetta og meta það svo að þetta sé eðlilegur farvegur. Þetta er okkar niðurstaða. Á þessum tímapunkti við vinnslu þessa máls er betra að láta þau orð nægja.“

Þá segir hann tilgang siðareglnanna vera að gera hlutina betur. Háskólasamfélagið vilji stunda sín fræði vel og þess vegna hafi hún siðanefnd.

„Það er nefnilega eitt að hafa akademískt frelsi og annað að skilja að því fylgir líka ábyrgð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert