Vilja að leikskólum verði lokað milli jóla- og nýárs

Leikskólakennarar og stjórnendur segja engin sóttvarnarök fyrir því að loka …
Leikskólakennarar og stjórnendur segja engin sóttvarnarök fyrir því að loka ekki leikskólum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ástæða er til að hafa verulegar áhyggjur af afleiðingum þeirrar ákvörðunar að hlusta ekki á raddir leikskólastjórnenda og leikskólakennara og loka leikskólum á milli jóla á nýárs til að hemja útbreiðslu kórónuveirunnar. Bæði til skamms og lengri tíma. Þetta kemur fram í ályktun Félags leikskólakennara og Félags stjórnenda leikskóla þar sem lýst er yfir vonbrigðum með að leikskólar verði opnir á milli jóla og nýárs, þvert á það sem óskað var eftir.

„Félögin komu áhyggjum sínum skýrt til skila með góðum fyrirvara en málefnaleg rök voru virt að vettugi. Engin haldbær sóttvarnarrök eru fyrir því að loka ekki leikskólum. Öll börn á leikskólastiginu eru óbólusett og ef horft er til hlutfalls fjölda barna í einangrun er sáralítill munur á milli leik- og grunnskólastigsins. Það er staðreynd að útilokað er að gæta að sóttvörnum milli barna á leikskólastiginu og nánd milli kennara og barna er miklu meiri en á öðrum skólastigum,” segir í ályktuninni.

„Við höfum því vítin til að varast“

Minna félögin á að bæði grunn- og framhaldsskólum hafi verið lokað dagana fyrir dymbilviku á þessu ári, en leikskólar verið hafðir opnir alla daga fram að lögbundnum frídögum. „Þessi ákvörðun lagðist mjög illa í kennara og stjórnendur og upplifðu þeir mikla vanvirðingu gagnvart skólastiginu. Sú ákvörðun leiddi til að í kjölfarið kom upp eitt stærsta hópsmit í íslensku samfélagi í leikskólanum Jörfa. Við höfum því vítin til að varast.“

Í ályktuninni er bent á að samgangur stórfjölskyldna sé eðlilegur fylgifiskur jólahalds, sem geti leitt til þess að smit dreifi sér í leikskólum landsins milli jóla og nýárs. Hvetja félögin foreldra eindregið til að halda börnum sínum heima þessa daga á milli hátíðanna og hvetja jafnframt sveitarfélögin til að hafa leikskólana lokaða.

Hætta á að leikskólakennarar fari á önnur skólastig

„Það er ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af afleiðingum þessarar ákvörðunar. Bæði til skamms tíma og lengri. Sú sóttvarnalega áhætta sem verið er að taka er óumdeild. Hins vegar er staðan nú þannig í leikskólum landsins að eftir að eitt leyfisbréf varð að lögum er raunverulega hætta á að leikskólakennarar fari í stórum stíl að kenna á öðrum skólastigum. Ákvarðanir sem þessar sem ekki eru studdar með sóttvarnarökum geta ýtt enn frekar undir þá slæmu þróun. Leikskólastigið má engan veginn við því,“ segir í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert