Sérþekking á ebólu nýtist vel í Covid-faraldri

Magna Björk Ólafsdóttir bráðahjúkrunarfræðingur sinnir að vissu leyti svipuðu hlutverki …
Magna Björk Ólafsdóttir bráðahjúkrunarfræðingur sinnir að vissu leyti svipuðu hlutverki og göngudeild Covid og smitrakningareymis. Ljósmynd/Rauði krossinn

Magnaður árangur hefur náðst í að koma í veg fyrir að Covid-19 breiðist út í tengslum við hjálparstarf á vegum Alþjóðasambands Rauða krossins (IFRC). Þrátt fyrir smit í röðum starfsmanna hefur tekist, með öflugum forvörnum og fyrirbyggjandi aðgerðum, að koma í veg fyrir að smit breiðist út til viðkvæmra skjólstæðinga sem langflestir eru óbólusettir.

Magna Björk Ólafsdóttir bráðahjúkrunarfræðingur starfar hjá IFRC í Genf við að skipuleggja þá verkferla sem starfsfólkið fer eftir í heimsfaraldri Covid-19, til að fyrirbyggja smit og frekari útbreiðslu smita. Hún sér til þess að allar skrifstofur sambandsins uppfylli sóttvarnir og sinnir smitrakningu ef upp kemur smit.

Magna hefur sérþekkingu á ebólu og hefur sinnt verkefnum því …
Magna hefur sérþekkingu á ebólu og hefur sinnt verkefnum því tengdu í Afríku. Ljósmynd/Aðsend

Þá veitir hún smituðum starfsmönnum ráðgjöf og gerir ráðstafanir ef þarf. Hún er í raun bæði smitrakningarteymi og Covid-göngudeild starfsfólks Rauða krossins á heimsvísu. Hún er alltaf með símann við höndina og hjálpar þeim sem á þurfa að halda. Hvort sem þeir eru veikir af Covid og þurfa að komast undir læknishendur eða eru með einfalda fyrirspurn.

Smit hafa ekki náð til skjólstæðinga 

Hún á stóran þátt í því að smit sem komið hafa upp meðal starfsmanna Rauða krossins hafa ekki náð að dreifa sér til skjólstæðinganna.

„Við leggjum okkur mikið fram við að fyrirbyggja og bregðast hratt og hart við,“ segir Magna í samtali við mbl.is. Hún er varkár í yfirlýsingum um góðan árangur, enda björninn ekki unninn enn. Við krossum fingur, þetta er víst ekki alveg búið,” bætir hún við.

„Það hafa alveg komið upp smit en sem betur fer hafa þau ekki náð til skjólstæðinga okkar. Við reynum að hafa frekar strangari verkferla af því við erum að koma inn í land þar sem er kannski ekki aðgengi að bólusetningum og erfitt að hoppa í test. Við viljum fyrirbyggja það að við sem erum að koma til aðstoðar séum ekki að bera með okkur smit og þar með hafa áhrif á heimafólkið, þá sem eru viðkvæmir fyrir og eru óbólusettir,“ útskýrir hún.

Magna heillaðist af ebólunni á sérkennilegan hátt og dáðist að …
Magna heillaðist af ebólunni á sérkennilegan hátt og dáðist að sjálfboðaliðum sem hlúðu að veikum nágrönnum sínum. Ljósmynd/Aðsend

„Ef þú ert með einkenni, þó það sé bara smá nefrennsli, þá stoppar þú. Við tökum enga sjénsa. Auðvitað smitast fólk og við höfum alveg fengið hópsmit, þetta eru auðvitað margt fólk um allan heim og stórar aðgerðir, en við höfum náð að stoppa af smitin.“

Það þykir ansi góður árangur enda hjálparstarfið þess eðlis að oft er mikil nánd við skjólstæðingana og aðstæður erfiðar. 

„Þú ert kannski að vinna í dreifingu matvæla, sem dæmi, í rosalegum hita en þú bara verður að hafa grímuna, jafnvel í einangrun í einhverju tjaldi. En við reynum að gera þetta allt eins viðráðanlegt og hægt er.“

Er til staðar og veitir viðeigandi ráðgjöf 

Magna er líka til staðar fyrir það starfsfólk sem smitast og veitir ráðgjöf í samræmi við það sem við á, en starfsfólk Rauða krossins er staðsett um allan heim við mjög mismunandi aðstæður.

„Ef þú ert starfsmaðurinn minn, búinn að fara í test og fá niðurstöður, þá er ég í daglegum samskiptum við þig, ég tékka á þér, er þér að versna? Sérstaklega á þeim stöðum þar sem er ekki sterkt heilbrigðiskerfi. Ég sé auðvitað um skrifstofuna í Genf, það eru 400 manns þar hjá okkur, en þar færðu bestu heilbrigðisþjónustu sem fyrirfinnst. Þá er þetta meira leiðbeina fólki með að fara í test og svo taka yfirvöld við.

Magna myndi ekki hika ef hún yrði kölluð til starfa …
Magna myndi ekki hika ef hún yrði kölluð til starfa vegna ebólu. Ljósmynd/Aðsend

Svo erum við með aðgerðir á hamfarasvæðum þar sem heilbrigðisþjónusta er bara ekki til staðar eða í algjöru lágmarki, þá er ég að leiðbeina samkvæmt því. Samkvæmt gildandi reglugerðum ef það eru einhverjar í gangi. Svo metum við hvort einhver er alvarlega veikur, fær covid í miðri sendiför í Hondúras eða á flóðasvæði og fer í einangrun. Ef heilsu hans versnar þá förum við í að reyna að koma þeim einstaklingi á stað þar sem hann fær heilbrigðisþjónustu og getur fengið meðferð. Metum hvort það þarf að sjúkrafljúga út og heim eða hvað. Þetta er mjög fjölbreytt.“

Alltaf á bakvakt í fríi

Hún segist finna fyrir auknu álagi núna þegar smitum fjölgar hratt víða um heim og óvissa ríkir varðandi Ómíkron-afbrigðið. „Sérstaklega þegar fyrstu fréttir bárust um Ómíkron. Þá fóru fleiri að hafa samband með áhyggjur og vildu fá ráðleggingar. Fólk verður líka meira meðvitað þegar smitum fjölgar og hefur frekar samband,“ segir Magna sem býst við álagið aukist enn frekar eftir hátíðarnar í takt við þá fjölgun smita sem búist er við.

Reynslan af ebólunni hefur reynst Mögnu vel í covid-faraldrinum.
Reynslan af ebólunni hefur reynst Mögnu vel í covid-faraldrinum. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er tilbúin í það og búin að undirbúa mig fyrir aukna vinnu,“ segir Magna, en þó hún sé á Íslandi í jólafríi, að nafninu til, þá er hún alltaf á bakvakt með símann á sér og tilbúin að hjálpa þeim sem á þurfa að halda. „Ég er alveg á vaktinni um jólin ef eitthvað er. Ég er alltaf á bakvakt þó ég sé í fríi, sem er alveg sjálfsagt. Ef einhver er í vanda eða fastur einhvers staðar af því hann er smitaður, jafnvel án einkenna. Það eru svo mismunandi reglur og verkferlar eftir löndum,“ segir Magna sem starfaði hjá Rauða krossinum á Íslandi þegar faraldurinn hófst, en fljótlega kom beiðni frá Genf um hvort hún gæti liðsinnt IFRC í faraldrinum. Hún hefur nú verið í þessum verkefni í um 18 mánuði. 

Covid meiri áskorun en ebólan

Líkt og áður sagði er Magna bráðahjúkrunarfræðingur og hefur sérþekkingu á ebólu. Hún hefur meðal annars starfað við þjálfun teyma í smitvörnum, greftrunum og viðbrögðum vegna ebólu, síðast í Úganda árið 2019. Hún segir þekkingu sína á ebólu hafa nýst vel í því verkefni sem hún sinnir nú. „Það sem við vorum að gera alltaf í ebólunni, á öllum námskeiðum og þjálfun í faraldrinum, það var fyrst og fremst þetta að halda fjarlægð, smitrakning, skoða hvert tilfelli og fylgja eftir. Allt það sem líka er notað við aðrar tegundir smitsjúkdóma. Ég hafði unnið mikið með það og þjálfað aðra í því og það kom að góðu gagni.“

Þessar veirur haga sér þó með ólíkum hætti og því ekki alltaf hægt að taka út úr reynslubankanum. „Þessi veira er af allt öðrum toga og við erum alltaf að læra eitthvað nýtt á hverjum degi. Þetta er aðeins meiri áskorun því það er alltaf eitthvað nýtt. Ég segi oftar „ég veit það ekki.“ Eins og með Ómíkron, við vitum eitthvað núna en þurfum svo að bíða og sjá hvernig hegðunin verður, hver áhrifin verða og vísindamenn eru á fullu að reyna að finna út er þessu fyrir okkur.“ 

Þá segir hún mikið um misvísandi upplýsingar í umferð, fólk verði hreinlega ringlað og viti ekki hverju það á að taka mark á.

Heillaðist af ebólu á skringilegan hátt

Magna hefur starfað fyrir Rauða krossinn víða um heim og segist hafa orðið meira forvitin og viljað fræðast meira um ebólu eftir að hún fór að fara í sendiferðir fyrir Rauða krossinn.

„Ég fór bara að verða meira forvitin. Eftir að ég varð hjúkrunarfræðingur þá langaði mig að geta aðstoðað þar sem heilbrigðiskerfið er ekki eins gott. Þannig byrjaði þetta.“

Þegar Magna fór að fara í sendiferðir þyrsti hana alltaf í að fara í fleiri. Árið 2012 var hún svo stödd sem samhæfingarstjóri á svæðisskrifstofu Alþjóða Rauða krossins í Afríku og þurfti að fara til Úganda til styðja við skrifstofuna þar vegna ebólu. „Uppfrá því varð ég pínulítið heilluð, á skringilegan hátt. Ég dáðist að sjálfboðaliðunum. Horfði á þá leggja líf sitt til hliðar til að sinna nágrönnum sínum. Það voru svo margir svona þættir sem mér fannst alveg magnaðir. Í kjölfarið varð ég meira forvitin og árið 2014 kom Vestur-Afríku faraldurinn og því meiri þekkingu og reynslu sem þú færð, því meira eykst áhuginn. Það að fá að skapa verkferla það drífur mann líka áfram,“ segir Magna sem gerir alveg ráð fyrir að fara í fleiri sendiferðir í tengslum við ebólu, þó hún sé í þessu Covid-verkefni núna.

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á ebólu og það kæmi ekki hik á mig ef ég yrði beðin um að hoppa aftur til að styðja við aðgerðir einhvers staðar. Mér finnst það sjálfsagt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert