Ómögulegt að koma í veg fyrir smit á Landspítala

Karl Andersen, yfirlæknir Hjartagáttar.
Karl Andersen, yfirlæknir Hjartagáttar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óhjákvæmilegt er að smit komi upp meðal sjúklinga á Landspítala í ljósi þess hvað kórónuveiran hefur breitt úr sér í samfélaginu og margir þeirra sem sýkst hafa reynast einkennalausir. Þetta segir Karl Andersen, yfirlæknir Hjartagáttar Landspítala.

Greint var frá því í gær að sjö kórónuveirusmit hefðu komið upp á meðal sjúklinga hjartadeildar á Landspítala. Að sögn Karls er ekki vitað hvernig smitið barst inn á deildina eða hvaða afbrigði veirunnar sjúklingarnir sýktust af.

Fyrsta smitið greindist á deildinni í fyrrakvöld en að sögn Karls var sýnatakan ekki tilkomin vegna einkenna og var greiningin því óvænt.

Hafið þið áhyggjur af því að margir sjúklingar séu að leggjast inn á deildir spítalans með Covid-19 án þess að vita af því?

„Það er gríðarlega mikið um smit úti í samfélaginu og margir eru með sýkingu án þess að vera með einkenni, það er erfitt að vara sig á því. Sömuleiðis heimsóknargestir. Heimsóknir hafa verið takmarkaðar á spítalanum en það er erfitt að átta sig á því ef fólk er ekki með nein einkenni. Smit geta borist inn á spítalann með sjúklingum, aðstandendum og starfsfólki.  Það var alveg vitað að það myndu koma inn smit eftir einhverjum af þessum þremur leiðum.“

Ómögulegt að verjast hundrað prósent

Er ómögulegt að koma í veg fyrir að það komi upp hópsmit meðal sjúklinga á Landspítala?

„Ég held að það sé alveg rétt metið að það sé ekki hægt að verjast því hundrað prósent. Það er það mikið af smitum þarna úti,“ segir Karl og bætir við að spítalinn sé hluti af samfélaginu sem bæði sjúklingar, aðstandendur og starfsfólk taki þátt í.

„Í þessum mikla fjölda leynast alltaf einhverjar sýkingar. Þær berast inn á spítala, það er alveg óhjákvæmilegt.“

Landspítali er kominn á neyðarstig en um 100 starfsmenn eru …
Landspítali er kominn á neyðarstig en um 100 starfsmenn eru í einangrun og fjölmargir í sóttkví. mbl.is/Ómar Óskarsson

Verklagið reynst vel síðustu tvö ár

Spurður hvort smitin hafi kallað á breytt verklag segir Karl að unnið hafi verið eftir þeim verkferlum sem nú þegar voru til staðar er varða hópsmit. Ganga þeir meðal annars út á að einangra þá sjúklinga sem í hlut eiga og takmarka umgang meðal starfsfólks.

„Það er grímuskylda á spítalanum og strangar sóttvarnir. Þessar smitvarnir og þessir verkferlar sem við höfum unnið eftir núna á síðustu tveimur árum hafa fram að þessu mikið til komið í veg fyrir stór smit. Þetta hefur gengið mjög vel og við höfum ekki séð sömu vandkvæði eins og á flestum sjúkrahúsum erlendis þar sem gjörgæslurnar hafa verið yfirfullar,“ segir Karl en bætir svo við að vissulega sé vandamál að einungis ein hjartadeild sé starfandi í landinu. Þannig standi ekki til boða að færa sjúklinga annað þegar smit koma upp.

„Meginvandamálið núna er að vaxandi fjöldi starfsfólks er frá vinnu vegna Covid-sýkingar, ýmist í einangrun eða sóttkví. Það skapar vanda við að manna vaktir  á öllum deildum og var mönnunarvandinn þó ærinn fyrir.“

Vilja opna deildina innan sólarhringsins

Eins og fram kom í gær hefur deildinni verið lokað á meðan verið er að bregðast við, rekja og skima. Að sögn Karls vonar starfsfólk að hægt verði að opna deildina aftur innan sólarhrings. Þangað til verður hliðrað til á hjartaskurðdeildinni fyrir móttöku nýrra sjúklinga eða þeir lagðir inn á gjörgæslu.

„Þær tvær deildir taka við sjúklingum á meðan hjartadeild er lokuð fyrir innlögnum. Við reynum að opna eins fljótt og auðið er en þó þannig að fyllsta öryggis sé gætt fyrir sjúklinga og aðra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert