Hagfræðiprófessorinn sem var rekinn úr MR

Á eyjunni Nantucket, sem er fjölsóttur sumardvalarstaður í Massachusetts-ríki. „Þar …
Á eyjunni Nantucket, sem er fjölsóttur sumardvalarstaður í Massachusetts-ríki. „Þar er vinsæl strönd sem maður getur keyrt á með því að hleypa lofti úr dekkjum bílsins. Þessi er frá síðasta sumri, en Ari neitaði að fara á ströndina og var heima með bandarískri ömmu sinni,“ segir Gauti. Ljósmynd/Aðsend

„Ég tók hagfræðipróf heima í Háskóla Íslands 1997. Mig langaði alltaf að taka doktorspróf í hagfræði og sótti þess vegna um á síðasta árinu mínu. Ég var svo ótrúlega heppinn að komast að í Princeton, og naut þess þar líklega sérstaklega að Þorvaldur Gylfason [prófessor í hagfræði] var með sterk tengsl inn í skólann, en hann lauk námi sínu þaðan líka.“ Þetta segir Gauti B. Eggertsson, prófessor í hagfræði við Brown-háskóla í Providence í Rhode Island í Bandaríkjunum, inntur eftir því hvernig leið hans hafi legið vestur um haf á sínum tíma.

„Þetta var mjög sérstakur tími í Princeton. Þarna voru samankomnir svo að segja allir fremstu fræðimenn heims á sviði peningahagfræði. Hún snýst um hvernig stjórna skuli peningastefnu seðlabanka. Það má segja að Princeton hafi á þessum tíma verið helsti suðupottur nýrra hugmynda á þessu sviði,“ segir Gauti af skólavistinni.

Brown-háskóli er stofnaður 1764 og er einn af hinum svokölluðu …
Brown-háskóli er stofnaður 1764 og er einn af hinum svokölluðu Ivy-league-háskólum en í þeim flokki eru margir af elstu og virtustu skólum Bandaríkjanna. Auk Brown eru þeir Columbia, Cornell, Dartmouth, Harvard, Princeton, University of Pennsylvania og Yale. Ljósmynd/Aðsend

Meðal kennara sinna í Princeton nefnir hann Ben Bernanke, er síðar varð seðlabankastjóri, Michael Woodford, sem er af mörgum talinn helsti sérfræðingur á sviði peningahagfræði í dag, hinn kunna dálkahöfund New York Times, Paul Krugman, sem og Christopher Sims. Hinir tveir síðastnefndu fengu síðar Nóbelsverðlaun í hagfræði, en Gauti bætir því við að honum kæmi síst á óvart ef Bernanke og Woodford slægjust í þann hóp í náinni framtíð.

Rekinn úr MR fyrir mætingu

Þótt Gauti hafi komist inn í Princeton, sem talinn er einn virtasti háskóli heims, í krafti góðs árangurs í Háskóla Íslands, og síðar á ferlinum kennt við marga virtustu háskóla Bandaríkjanna, svo sem Columbia, Princeton, Yale og nú síðast Brown, má segja án þess að miklu sé logið að námsferillinn hafi ekki alltaf verið hefðbundinn. Þegar talið berst að menntaskólaárunum hlær Gauti.

„Já, ég var reyndar rekinn úr Menntaskólanum í Reykjavík í fimmta bekk. Ástæða brottrekstursins var slök mæting. Ég taldi mig nú reyndar vera með allt mitt á hreinu. Á þessum tíma mátti maður missa af ákveðnum fjölda tíma án þess að lenda í vandræðum. Vandinn var hins vegar sá að þýskukennarinn minn merkti mig alltaf fjarverandi ef ég var sofandi í tímum, sem var yfirleitt alltaf á þessum árum,“ útskýrir Gauti og blaðamaður kannast reyndar við að annað veifið hafi svefninn sigrað á menntaskólaárunum.

Þessi brottrekstur Gauta kom að vísu að lítilli sök, segir hann. Honum var meinað að mæta í tíma, sem hann að eigin sögn gerði hvort eð er ekki mikið af, en leyft að þreyta próf utanskóla. „Það gerði nú lítið til, því ég átti svo dásamlega góða vini úr bekknum mínum, 5-S. Þessir skólafélagar voru svo vinsamlegir að lána mér glósurnar sínar til að ljósrita. En úr því ég hafði áhuga á að komast til náms til Bandaríkjanna, tókst mér loks að hysja upp um mig brækurnar þegar kom í Háskóla Íslands. Þar var ég vakandi og gott betur í öllum kennslutímum,“ segir prófessorinn sem var rekinn úr MR. Kemur fyrir besta fólk.

Skóli með 52 milljarða

Þótt hagfræðin sem fræðigrein eigi rætur að rekja til Englands var Gauti ákveðinn í að halda til framhaldsnáms til Bandaríkjanna. „Síðustu áratugi hafa Bandaríkin verið sá staður þar sem hlutirnir í mínum fræðaheimi eru að gerast, þótt að undanförnu hafi sumir evrópskir skólar verið að sækja í sig veðrið. Mig grunar að helsta ástæða þess sé einfaldlega sú að bandarískir háskólar eru svo gífurlega auðugir, bæði vegna hárra skólagjalda, en ekki síst vegna þess að það er sterkari hefð fyrir því í Bandaríkjunum að fólk gefi peninga til háskóla,“ útskýrir Gauti og kveður þar oftar en ekki um stjarnfræðilegar upphæðir að ræða.

Feðgar í sumarfríi á Nantucket-eyju, sjaldgæf lopapeysulaus mynd af fjölskyldunni …
Feðgar í sumarfríi á Nantucket-eyju, sjaldgæf lopapeysulaus mynd af fjölskyldunni reyndar. Ljósmynd/Aðsend

Nefnir hann sem dæmi að Harvard-háskóli liggi á 52 milljörðum bandaríkjadala, upphæð sem svarar til nánast 7.000 milljarða íslenskra króna. „Og til að gefa annað lítið dæmi, hér í hagfræðideildinni í Brown gaf einn fyrrverandi nemandi okkur 25 milljónir dala til að ráðstafa eins og okkur þótti best henta, eða sem svarar 3,2 milljörðum íslenskra króna. Almennt séð geta bandarískir háskólar því borgað margfalt hærri laun en þekkist í Evrópu og annars staðar, og veitt miklu meiri fjárhagslegan stuðning til rannsókna,“ segir Gauti, augljóslega öllum hnútum kunnugur á háskólastiginu vestanhafs.

Hvað þú skrifar og hvort einhver les það

Hann kveðst ákaflega ánægður með það veganesti sem Háskóli Íslands bjó honum forðum daga, hagfræðideildin þar hafi undirbúið hann vel fyrir það er koma skyldi. „En ég held að Háskóli Íslands og flestir evrópskir háskólar, með nokkrum undantekningum, séu ekki sambærilegir við bandaríska háskóla. Bandarísku skólarnir hafa tök á því að plokka til sín bestu fræðimennina með hærri launum. Og margir sem eftir sitja finna sig knúna til að bæta við launin sín með alls kyns aukastörfum, sem kemur auðvitað niður á þeim tíma sem þeir hafa til að stunda rannsóknir,“ segir Gauti, en slær þó þann varnagla að þetta sé að breytast smátt og smátt.

Ýmsum evrópskum háskólum hafi tekist að byggja sig ágætlega upp, svo sem London School of Economics og nánast alnafna þess skóla í París, til að taka tvö dæmi. Á sviði læknisfræði á Íslandi, til dæmis, hefur tilkoma deCODE valdið algerri byltingu.“

Gunnar Dagur var fermdur síðasta sumar en þá athöfn annaðist …
Gunnar Dagur var fermdur síðasta sumar en þá athöfn annaðist sr. Grétar Gunnarsson sem er kvæntur Valgerði, systur Gauta og Dags. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig skyldi Gauta þá hafa gengið að smjúga inn í amerískt fræða- og kennslusamfélag, ungum fræðimanni frá Íslandi? „Þetta er tiltölulega vel skipulagt kerfi hérna í Bandaríkjunum. Þú skrifar þína doktorsritgerð og svo fer fram tiltölulega vel skipulagður vinnumarkaður, þar sem prófessorar í háskólum lesa þær greinar sem þú hefur skrifað, bjóða þér í heimsókn ef þeim líst vel á, og gera svo tilboð ef fyrirlesturinn gengur vel.

Ráðningarforsendur í bandarískum háskólum byggjast fyrst og fremst á því hvað þú hefur skrifað. Svo þegar á líður verður mælikvarðinn nákvæmari, því hægt er að skoða hvar fræðigreinar eru birtar og hvort einhver sé að lesa þær eða vitna í þær. Þetta er sem sagt mælikvarðinn – nánast ekkert annað,“ útskýrir prófessorinn.

Líkir bræður – ólíkar leiðir

Við vendum kvæði okkar í kross frá háskólamálum. Bróðir Gauta er Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík. Ólíkt hafast þeir að og forvitnilegt að spyrja hver þróunin hafi þá verið á yngri árum þeirra varðandi val á starfsvettvangi.

„Já, það er góð spurning,“ játar Gauti, „vegna þess að fólki þótti við vera svo líkir þegar við vorum að alast upp. Og við fórum að mörgu leyti sömu leið í grunnskóla og menntaskóla, alveg þangað til við fórum í háskólann. Þá fór hann í læknisfræði og ég í hagfræði. Þannig að kannski stafar þetta bara af því að við völdum mismunandi fög.

Þeir bræður þóttu líkir, best að taka þá fram til …
Þeir bræður þóttu líkir, best að taka þá fram til öryggis að Dagur B. Eggertsson er vinstra megin. Í miðið er Valgerður litla systir. Ljósmynd/Aðsend


En ég held að það sé önnur mikilvæg ástæða, sem er að einhverju leyti tilviljun. Ingibjörg Sólrún [Gísladóttir] plataði Dag í framboð þegar hann var við það að hefja framhaldsnám við Karolinska Institut í Svíþjóð, sem er rannsóknarháskóli á heimsmælikvarða. Ef ekki hefði verið fyrir það kæmi mér alls ekki á óvart ef Dagur hefði helgað sig rannsóknum eins og ég, því við hugsum mjög svipað um hluti. Og þá væri Dagur kannski prófessor einhvers staðar, ef til vill hérna í Bandaríkjunum,“ segir yngri bróðirinn með raddblæ sem ef til vill slær í að vera dreyminn.

Gauti kveðst á sínum tíma ekki hafa haft mikinn áhuga á læknisfræðinni sem bróðir hans hneigðist til. „Það er helst núna að ég sé farinn að hafa áhuga á læknisfræði, enda búinn að lesa mikið af læknisfræðilegum greinum,“ játar Gauti, sem fékk erfiðar fréttir á árinu sem var að líða. En meira um það hér á eftir.

„Við erum „hardcore“ úthverfamenn!“

Tengsl þeirra Dags og Gauta eru náin. „Við sváfum í sömu kojunni þegar við vorum litlir, þar til við urðum aðeins eldri, þá var hún söguð í tvennt þannig að rúmin lágu hlið við hlið og við gátum talað saman fram á nótt,“ segir Gauti og hlær að minningu um löngu horfna daga. Það var líka oft hlegið að því á heimilinu að við höfðum stundum um svo mikið að tala að við eltum hvor annan inn á klósett til að halda umræðum áfram. Ég verð að viðurkenna að við höfum fyrir margt löngu lagt niður þann sið,“ segir Gauti glettnislega.

Þjóðleg fjölskylda í lopapeysum á jólum. Helima Croft heldur á …
Þjóðleg fjölskylda í lopapeysum á jólum. Helima Croft heldur á hundinum Þór, hjá Gauta og á gólfinu eru synirnir Gunnar Dagur, Óskar Alexander og Ari Bergþór. Ljósmynd/Aðsend


Hann kveður þá bræður enn í dag eiga mörg samtöl á viku svo vissulega séu tengsl þeirra náin þótt þeir hafi fetað ólíka stigu í lífinu. „Svo eigum við yndislega systur, hana Valgerði eða Völu. Hún er sjö árum yngri en ég, svo framan af voru tengslin við hana ekki jafn mikil og við bróður minn, það eru bara tvö ár á milli okkar Dags. En þegar maður eldist skipta sjö ár engu máli lengur, þannig að við erum öll mjög náin í dag í fjölskyldunni,“ segir Gauti af þeim systkinum.

Við frekari eftirgrennslan kemur í ljós að þau fjölskyldan eru Árbæingar í húð og hár. „Þess vegna finnst mér afskaplega fyndið þegar pólitískir andstæðingar Dags eru að halda því fram að hann sé einhver 101 latte-lepjandi miðbæjarmaður. Við erum „hardcore“ úthverfamenn. Við ólumst upp í Árbæ og Fylki. Dagur varð meira að segja Íslandsmeistari með Fylki. Því miður voru fótboltahæfileikar mínir ekki jafn miklir,“ segir Gauti og hlær. Sjálfur segist hann aldrei hafa búið annars staðar en í Árbænum meðan hann bjó á Íslandi, en Gauti flutti til Bandaríkjanna 23 ára gamall.

Eiginkonan hjá CIA

Eiginkona Gauta er Helima Croft, forstöðumaður greiningardeildar Royal Bank of Canada Capital Markets sem sér meðal annars um að spá fyrir um verð á olíu og annarri hrávöru, enda er olíuútflutningur stór hluti af kanadísku efnahagslífi. Að auki starfar hún sem reglulegur álitsgjafi fyrir CNBC, stærstu viðskiptasjónvarpsstöð Bandaríkjanna.

„Við Helima erum líklega af síðustu kynslóðinni sem kynntist ekki í gegnum stefnumótaforrit,“ segir Gauti og hlær. „Sem betur fer líklega. Ég held ég hefði ekki átt neinn séns. Við kynntumst upp á gamla mátann á bókasafninu í Princeton. Á þeim tíma vorum við bæði að skrifa doktorsritgerðir, ég í hagfræði en Helima í sagnfræði. Leið okkar til þeirra starfa sem við nú stundum er reyndar dálítið óhefðbundin og eftir miklum krókaleiðum,“ segir hann frá og er krafinn útskýringa.

Ekki stendur á þeim. „Helima kláraði sitt nám rétt í kringum 11. september 2001. Í kjölfarið var hún fengin til starfa hjá bandarísku leyniþjónustunni CIA. Vegna þess að CIA er rétt í námunda við Washington DC ákvað ég að þiggja starf í rannsóknardeildinni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Prófessorarnir mínir við Princeton voru nú heldur óhressir með það val. Þeir vildu að ég tæki frekar stöðu við háskóla. En nálægð við Helimu gekk fyrir,“ segir Gauti. En ekki hvað?

„Við vorum bæði í Washington og ég man á þessum tíma, ef fólk var ekki að mótmæla CIA þá var það að mótmæla IMF [Alþjóðagjaldeyrissjóðnum],“ rifjar hann upp en játar að Washington hafi ekki heillað. „Mér finnst hún ótrúlega leiðinleg, stór hluti fólks er bara að stoppa stutt. Mér fannst þetta dálítið eins og stoppistöð – hún hefur ekki sama kjarna, eða sál, og margar aðrar borgir, eins og New York, Boston eða Providence til dæmis,“ segir Gauti og bætir því við að kynþáttaspennan í höfuðborginni hafi síst aukið á hrifningu hans.

„Myndu líta á mig sem „Íslendinginn““

Næst lá leið þeirra hjóna til New York, þar sem Helima hóf störf í fjármálageiranum en Gauti tók við starfi í rannsóknardeild Seðlabanka Bandaríkjanna. Í New York, borginni sem aldrei er sögð sofa, komu svo þrjú börn í heiminn, bræðurnir Gunnar Dagur, Óskar Alexander og Ari Bergþór, og nýlega bættist hundurinn Þór í hópinn. Íslensk-amerísk kjarnafjölskylda.

Gauti og Helima á polo-balli í Newport.
Gauti og Helima á polo-balli í Newport. Ljósmynd/Aðsend


Samhliða starfi sínu hjá seðlabankanum kenndi Gauti við ýmsa háskóla, þar á meðal Yale, Princeton og Columbia. Árið 2012 tók hann svo fasta stöðu prófessors við Brown-háskólann í Providence, höfuðborg Rhode Island-ríkis, steinsnar sunnan við Boston. „Þetta val helgaðist aðallega af því að fjölskylda Helimu býr í Providence. Hún á fjölfatlaðan bróður, Nick, sem þarf á mikilli aðhlynningu að halda. Mamma Helimu er komin hátt á áttræðisaldur, þannig að við sjáum fram á að þurfa að taka meiri og meiri ábyrgð,“ segir Gauti af högum fjölskyldu sinnar.

Þau halda þó enn þá tvö heimili, annað í New York og hitt í Providence, og færðu drengina úr skóla í stórborginni yfir til Providence eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á heimsbyggðinni. Helima vinnur enn sem komið er mikið í New York og Gauti sinnir enn ráðgjafastörfum fyrir seðlabankann þar.

Hann kveður Bandaríkjamenn almennt taka gestum sínum vel. „Eitt sem maður tekur sérstaklega eftir, og er stór munur á Bandaríkjamönnum og flestum evrópskum þjóðum, er að það að vera einhvers staðar frá skiptir miklu minna máli í Bandaríkjunum. Hér lítur fólk mjög fljótt á þig sem Bandaríkjamann. Ef ég væri prófessor á Englandi, Spáni eða í Þýskalandi grunar mig að flestir myndu enn þá líta á mig sem „Íslendinginn“. Bandaríkin eru svo mikill suðupottur. Ég sé þetta til dæmis í hagfræðideildinni hjá mér í Brown, þar sem er fólk af ótal þjóðernum,“ segir Gauti.

Hafragrautur og tvær kartöflur

Hann svarar spurningu um hvort Bandaríkin séu þægilegt þjóðfélag til búsetu hvort tveggja játandi og neitandi. „Þau eru mjög þægileg fyrir fólk sem er vel efnað og gengur vel. Þá færðu betri þjónustu í Bandaríkjunum en víðast hvar annars staðar, hvort sem við erum að tala um menntakerfið, spítala eða hvað sem er.“ Nei-hluta svarsins kveður Gauti hins vegar sprottinn af hinni gríðarlega ójöfnu tekjudreifingu í landinu, þar njóti þeir, sem standa hve höllustum fæti, lökustu þjónustunnar og kröppustu kjaranna, miklu verri en þess sem tíðkast á Íslandi.

Eftir fróðlega þjóðfélagsgreiningu og umræður um menntamál tökum við upp alvarlegra hjal. Gauti greindist með endaþarmskrabbamein á haustdögum. Hver var aðdragandi þess?

„Konan sendi mig á heilsuhæli til Austurríkis. Ég held að hún hafi verið með þetta sjötta skilningarvit sem fólk okkur náið er oft með. Henni fannst eins og hlutirnir væru bara ekki í lagi. Ég var mjög skeptískur á að fara á svona heilsuhæli, ímyndaði mér fólk í jóga að tilbiðja dularfullar verur í einhverjum kristalsgrottó,“ segir Gauti í léttum dúr, „en svo kom í ljós að þessi staður sem ég fór á var vísindalega byggður. Fæðið þarna samanstóð af hafragraut á morgnana, tveimur kartöflum í hádegismat og svo var eitthvert gruggugt vatn sem kallað var súpa í kvöldmat.

Einhverjum kynni að þykja hádegisverðurinn rýr á heilsuhæli í Austurríki. …
Einhverjum kynni að þykja hádegisverðurinn rýr á heilsuhæli í Austurríki. Ekkert schnitzel á borðum á þeim bænum alltént. Ljósmynd/Aðsend


Til að gera illt verra var svo ekkert vín á borðum og, það sem verra var, ekkert kaffi heldur! Ég komst raunar að því, sem kom mér á óvart, að ég saknaði víns minna en kaffis, fyrir utan auðvitað að fá eitthvað almennilegt að borða,“ segir Gauti og blaðamaður fyllist næmum skilningi, enda óforbetranlegur kaffiþambari.

Sáraeinfalt að fara í ristilskoðun

Þarna hófst allsherjarheilsuúttekt og í þeirri skoðun hafi Gauta verið ráðlagt að fara í ristilspeglun í kjölfar ómskoðunar. „Ég hélt nú að ómskoðun væri fyrst og fremst eitthvað fyrir ófrískar konur og fullvissaði lækninn um að ég væri ekki ófrískur. En þótt læknirinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að ég væri ekki ófrískur, fannst henni meltingarkerfið grunsamlegt. Ég fór í ristilspeglun þegar ég kom til baka til New York og þá kom í ljós krabbamein,“ segir Gauti frá og leggur fram varnaðarorð að fenginni reynslu.

Dagur B. Eggertsson með fermingardrengnum frænda sínum og að hluta …
Dagur B. Eggertsson með fermingardrengnum frænda sínum og að hluta til nafna, Gunnari Degi. Ljósmynd/Aðsend


„Ég held að það sé full ástæða til að fólk fari að skima fyrir þessu fyrr, mér skilst að skimun byrji ekki fyrr en við 50 ára aldur. Ég er 47 ára gamall og mér segja fróðari menn og konur að nú sé krabbamein að finnast æ oftar í yngra fólki. Ég hef heyrt á læknum að þeir telji eðlilegt að fólk fari að skoða þetta strax um fertugt. Það er sáraeinfalt að fara í ristilskoðun og ef þetta er bara nýbyrjað, þegar myndast svokallaðir ristilsepar, er hægt að klippa út á sama tíma og ristilspeglunin fer fram.

Ef ég hefði farið í ristilspeglun fyrir fimm eða sjö árum hefði þetta ekki verið neitt mál. Nú sé ég hins vegar fyrir mér heilmikið maraþon,“ útskýrir Gauti. Hann kveður þá vakningu, sem orðið hafi undanfarin ár um brjóstakrabbamein kvenna, jákvæða, en gera megi mun betur í að vekja athygli á endaþarms- og ristilkrabbameini.

Hvernig var þá að fá þessi tíðindi?

„Þegar ég vaknaði úr svæfingunni út af ristilskoðuninni sagði sá sem framkvæmdi hana við mig: „Já, það er eitthvað þarna, ég veit bara ekki alveg hvað það er.“ Og þá spurði ég hann: „Já, er þetta krabbamein?“ og hann svaraði: „Hafðu engar áhyggjur, þetta verður allt í fína!“ Þegar ég heyrði þetta vissi ég strax að ég væri í vondum málum,“ segir Gauti og skellihlær. Játar hann þó að vitaskuld hafi hann, þegar búið var að taka sýni úr æxlinu, verið búinn að búa sig undir hið versta úr því eitthvað reyndist vera þarna á annað borð.

Pabbi og mamma bjargvættirnir

„Ég bý svo vel að systir hennar Örnu, konunnar hans Dags, er einmitt skurðlæknir á sviði krabbameins í endaþarmi og ristli. Hún hefur varið stærstum hluta síns starfsferils í Yale hér í Bandaríkjunum en er nú nýkomin heim til Íslands,“ segir Gauti og hafi því auðvitað legið beinast við að hringja í hana til skrafs og ráðagerða. Hún hafi þá greint vandann nær samstundis.

Helima á góðri stundu með föður sínum, Howard Croft. Myndin …
Helima á góðri stundu með föður sínum, Howard Croft. Myndin er tekin í trúlofunarveislu þeirra Gauta árið 2002. Howard lést af völdum Covid-19 árið 2020. Ljósmynd/Aðsend

„Það er auðvitað bara eins og með fréttir almennt,“ svarar Gauti, inntur þess hvernig gengið hafi að greina fjölskyldunni á Íslandi frá stöðu mála. „Þau voru náttúrulega ekkert ofurhress með þetta en þetta er bara vandamál sem þarf að glíma við. Ég bý að svo góðri fjölskyldu að strax og Íslendingar máttu aftur ferðast til Bandaríkjanna voru mamma og pabbi komin í fyrstu vél. Fyrsti hluti meðferðarinnar var geislameðferð í New York í sex vikur.

Þau skiptu því þannig að annað þeirra fór með mér í meðferð, hitt hjálpaði Helimu með villikettina þrjá í Providence. Reyndar hefur mér liðið síðustu vikur í New York eins og ég búi á lúxushóteli, því mamma eða pabbi hafa alltaf verið að bera á borð dýrindiskræsingar, fyrir utan svo að passa upp á að ég hreyfi mig nægilega mikið, sem á víst að hjálpa við að koma í veg fyrir aukaverkanir.

Pabbi og mamma komin að stappa stálinu í strákinn. Þau …
Pabbi og mamma komin að stappa stálinu í strákinn. Þau Bergþóra Jónsdóttir lífefnafræðingur og Eggert Gunnarsson dýralæknir skiptu sér niður á vaktir og voru syni, tengdadóttur og börnum innan handar með hvaðeina. Ljósmynd/Aðsend


Sá járnagi sem mamma og pabbi hafa haldið uppi í þeim málum hefur gert það að verkum að ég held ég sé í besta formi í dag í 20 ár eða svo. En að minnsta kosti hef ég verið heppinn að því leyti að ég hef fengið litlar sem engar aukaverkanir af meðferðinni enn sem komið er,“ segir Gauti frá nýhafinni baráttu við vágestinn innra með honum.

„Maður er dauður svo lengi“

Hann getur á þessu stigi lítið sagt um áhrif meðferðarinnar á sjálfan krabbann, þar sem hann sé rétt búinn að ljúka téðri geislameðferð, fyrsta skrefinu á vegferðinni. Málin skýrist þó hugsanlega nú í janúar en fram undan bíða stórar áskoranir, lyfjameðferð og skurðaðgerð. „Það tekur dálítinn tíma skilst mér, eftir geislana, að vita hvort æxlið hafi minnkað eða ekki. Þetta er staðbundið æxli hjá mér, en um leið og þetta er farið að dreifa sér yfir í lungu eða nýru fara líkurnar mjög hratt versnandi,“ útskýrir hann um leið og hann kveður útlitið bara gott .

Þau hjónin tóku þá ákvörðun frá upphafi að segja börnunum allt af létta. „Ef þú segir börnunum ekkert en þau vita samt að eitthvað er að, fara þau bara að ímynda sér það versta. Þá er betra að segja hlutina bara eins og þeir eru,“ segir Gauti og kveður börnin hafa tekið tíðindunum vel miðað við allt og allt.

Hið annálaða lopapeysumynstur „Riddarinn“ sem víða hefur ratað, meðal annars …
Hið annálaða lopapeysumynstur „Riddarinn“ sem víða hefur ratað, meðal annars inn í norsku sjónvarpsþættina „Exit“. Ljósmynd/Aðsend

Inntur eftir því hvort hann hugsi mikið um dauðann segir Gauti: Ég segi bara eins og afi minn Gunnar þegar hann var að glíma við krabbamein: „Ég er að hugsa um að vera hérna eitthvað aðeins lengur, því eins og Daninn segir: „Man bliver så længe død [maður er dauður svo lengi]“,“ segir Gauti af sínum vanalega léttleika og bætir við, „en auðvitað er það nú svo hjá okkur öllum að við yfirgefum sviðið einhvern tímann. Ég held að ég geti bara verið nokkuð sáttur, ekki síst með börnin mín þrjú. Þau eru mitt helsta framlag.“

Mögnuð tilviljun á veitingastað

Eftir stórfróðlegt og um leið hjartnæmt spjall eru Gauta B. Eggertssyni, hagfræðiprófessor við Brown-háskólann í Providence, gefin lokaorðin, hvorki klippt né skorin:

„Að lokum langaði mig að nefna dálítið skemmtilega tilviljun. Þegar pabbi var að heimsækja mig hérna í New York, gengum við eitt kvöldið á veitingastað nálægt íbúðinni okkar. Á leiðinni spyr pabbi: „Hittir þú einhvern tímann Íslendinga?“ „Lítið sem ekkert,“ segi ég. Á veitingastaðnum vill þjónninn að við setjumst út í horn. Mér er yfirleitt sama um þannig hluti. En af einhverjum ástæðum leist mér svo óskaplega vel á borð sem ég sá, og bað um að fá að sitja þar í staðinn.

Lubbinn enn á sínum stað. Gauti og Helima að kynnast …
Lubbinn enn á sínum stað. Gauti og Helima að kynnast í Princeton árið 1998. „Við erum síðasta kynslóðin sem kynntist ekki gegnum stefnumótaforrit,“ segir Gauti sem kynntist spúsu sinni upp á gamla mátann á bókasafninu í Princeton. Ljósmynd/Aðsend

Þegar við pabbi settumst niður og byrjuðum að spjalla sneri konan á næsta borði sér að okkur: „Hæ, þið hljótið að vera frá Íslandi!“ – en slíkt hefur aldrei gerst áður í mínu tilfelli eftir 17 ára búsetu. Hún kynnir sig og heitir Elín Marta Pétursdóttir. Hún heyrði að við værum að tala um krabbamein. Og þá kemur í ljós að hún var greind með sömu tegund krabbameins árið 2019 – jafnvel nákvæmlega sama stig og staðsetningu. Þar að auki var hún meðhöndluð á sama sjúkrahúsi, Memorial Sloan Kettering Cancer Center.

Eins og þetta væri ekki nóg þá kom í ljós að á þessum risastóra spítala var hún meðhöndluð af sama skurðlækni og ég, dr. Martin Weiser. Þegar Elín er að segja sögu sína kemur eiginmaður hennar að borðinu eftir að hafa verið búinn að létta á sér. Dúkkar þar upp gamall vinur minn, Sigurgeir Jónsson, bekkjarbróðir úr hagfræðideild Háskóla Íslands fyrir tæpum 30 árum. Til að gera langa sögu stutta reynist Elín vera krabbameinslaus í dag og þurfti ekki einu sinni skurðaðgerð þar sem geisla- og lyfjameðferð reyndust einstaklega vel í hennar tilfelli. Þar að auki fékk hún litlar sem engar aukaverkanir af meðferðinni.

Ari Bergþór með flestar tennurnar svona á leiðinni alla vega …
Ari Bergþór með flestar tennurnar svona á leiðinni alla vega og hálfnafna sinn Þór í fanginu sem líklega er með flestar sinna tanna. Ljósmynd/Aðsend


Auðvitað spurði ég sjálfan mig strax: Erum við Elín skyld? Það er sterkur erfðaþáttur í krabbameini. Í gamla daga hefði ég bara spurt ömmu Heiðu sem vissi hvernig allir tengdust öllum. Í dag höfum við auðvitað Íslendingabók. Það kemur í ljós að afi Gunnar, sem ég nefndi hér fyrr og dó úr krabbameini, og móðir Elínar, sem dó líka úr krabbameini, eru þremenningar. Sameiginlegur forfaðir okkar er því Gísli Jónsson sem dó 1880, bóndi á Ytra-Múla í Barðastrandarhreppi á Vestfjörðum. 

Ég er nú ekki hjátrúarfullur. En ef svo væri myndi ég sterklega hafa grunað afa Gunnar, í þéttu samsæri við Gísla, um að hafa sett okkur Elínu þarna saman til að lyfta andanum, og afi Gunnar auðvitað hlæjandi með sjálfum sér: Þú ert ekki að fara neitt strax Gauti minn. Því eins og Danir segja: „Man bliver så længe død.““

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert