Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur fengið afhenta greinargerð skrifstofu Alþingis, þar sem ásökunum um ritstuld í tengslum við rannsóknarskýrslu um fall sparisjóðanna er svarað.
Frá þessu greinir Ásgeir í færslu á Facebook en hann segist hafa farið þess á leit við Alþingi að fá að sjá afgreiðslu málsins á sínum tíma, eða frá nóvember árið 2015, eftir að ásakanirnar voru nýlega endurbirtar á forsíðu Fréttablaðsins.
Sagnfræðingurinn Árni H. Kristjánsson sagði þá í samtali við blaðið að Ásgeir hefði, ásamt öðrum, framið ritstuld við ritun skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.
„Ég get eiginlega ekki tjáð mig um málið sjálft – enda var ég ekki aðili þess. Niðurstaðan Alþingis er sú að „komið hafi fram fullnægjandi skýringar“ og þetta hafi verið „óviljaverk en ekki vísvitandi tilraun til ritstuldar“. Annars getur hver myndað sér sína eigin skoðun eftir lestur greinargerðarinnar,“ skrifar Ásgeir í dag.
„Það sem skiptir mig máli er að greinargerðin staðfestir algerlega að ég var ekki aðili að málinu og raunar alls ókunnugur því fyrr en ég var tengdur því á forsíðu dagblaðs nú rétt fyrir jólin.“
Bendir hann meðal annars á að í greinargerð skrifstofu Alþingis komi fram að ritstjórnarleg ábyrgð skýrslunnar hafi verið á höndum þriggja manna nefndar.
„Ég var ekki í þeirri nefnd og fór aldrei með neina ritstjórnarlega ábyrgð. Ásakanir um ritstuld snerust að mestu um Viðauka A í skýrslunni sem ber titillinn Hagsaga sparisjóðanna. Þessi viðauki er höfundarmerktur tveimur mönnum – hvorugur þeirra er ég. Og ég hafði enga aðkomu að ritun þessa kafla,“ skrifar hann.
Þá sé skýrslan vandað og yfirgripsmikið verk, sem telji 1867 síður og hafi verið ritað af 53 starfsmönnum og verktökum.
„Ég var einn þessara 53. Ekkert efni er þó höfundarmerkt mér sérstaklega. Það er því umhugsunarefni af hverju mitt nafn – eitt af 53 öðrum nöfnum – er dregið fram sérstaklega í fréttaflutningi af málinu.
Ég kom að ritun þessarar skýrslu 1-2 árum eftir að Árni H. Kristjánsson hætti samstarfi við nefndina. Mig rekur ekki minni til þess að ég hafi séð efni frá honum þá mánuði sem ég vann sem verktaki fyrir nefndina, eða yfir höfuð að ég hafi vitað að hann væri til.“
Greinargerð Alþingis sé enn fremur afdráttarlaus með það, „að ekkert hafi komið fram sem gefi tilefni til þess að ætla að einstakir rannsóknarnefndarmenn hafi vitað eða mátt vita um framangreind vinnubrögð og þá atburðaröð sem lýst hefur verið“, skrifar Ásgeir og vitnar í greinargerðina.
„Ég verð að segja það frá hjartanu – í ljósi þess sem ég hef hér rakið finnst mér finnst fréttaflutningur af þessu máli og sakbending mín sem ritþjófs í tveimur forsíðufréttum sama dagblaðs vegna starfa minna fyrir rannsóknarnefndina óvandaður og óboðlegur.“
Málinu sé nú lokið hvað hann snerti.