Björgunarsveitir farnar að finna fyrir óveðrinu

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/​Eggert

Óveðrið á Suðvesturlandi skall á með látum á ellefta tímanum í kvöld. Fyrsta útkall til björgunarsveita barst klukkan 22:17 en eftir það höfðu rúmlega tuttugu tilkynningar borist til Slysavarnafélagsins Landsbjargar á rúmri klukkustund. 

Þetta segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is.

Þakplötur og grindverk á ferð og flugi

„Það er búið að kalla út flestallar björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu, suðurnesjum og í Vestmannaeyjum.“

Hann segir tilkynningum hafa fjölgað hratt eftir að líða tók á kvöldið en flestar tengjast þær fjúkandi munum.

„Þetta er mestmegnis fok á þakklæðningun, grindverki og þakplötum. Eitthvað af braki í kringum byggingaefni og á byggingasvæðum. Það eru þó nokkrar þakplötur að fjúka, bæði á Suðurnesjum, Álftanesi og í Reykjavík.“

Ekkert ferðaveður á suðvesturlandi

Ein tilkynning barst um kofa sem var að fjúka við eyðibýli á Vatnsleysuströnd.

Engin tilkynning borist um fólk á ferðum í vanda en Davíð segir ekkert ferðaveður á suðvesturlandi og ítrekar fyrir fólki að vera ekki á ferðinni að óþörfu.

Björgunarsveitir munu standa vaktina í alla nótt en versta óveðrið á að ganga yfir í fyrramálið á morgun en þá mun Veðurstofa Íslands aflétta þeim gulu og appelsínugulu viðvörunum sem hún hefur gefið út fyrir suður- og vesturland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert