Ráðherra lætur skoða rafskútur

Rafskútur hafa heldur betur rutt sér til rúms hér á …
Rafskútur hafa heldur betur rutt sér til rúms hér á landi síðustu misseri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýr starfshópur mun koma með tillögur að því hvernig auka megi öryggi smáfarartækja og kortleggja stöðu slíkra tækja í umferðinni. Tillögum að úrbótum og inniviðauppbyggingu þar að lútandi á að skila fyrir 1. júní næstkomandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu Stjórnarráðsins.

Þar segir að Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hafi skipað starfshópinn, sem mun samanstanda af fulltrúum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samgöngustofu, Vegagerðarinnar, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar.

„Smáfarartæki hafa á skömmum tíma orðið áberandi og mikilvægur ferðamáti og skapað tækifæri til jákvæðra breytinga á ferðavenjum fólks. Í grænbók um samgöngur sem birt var í september sl. er aukin hlutdeild smáfarartækja skilgreind sem eitt af lykilviðfangsefnum málaflokksins,“ segir í tilkynningu um málið.

„Markmið með vinnu starfshópsins eru að styðja við fjölbreyttari og umhverfisvænni ferðamáta og stuðla jafnframt að auknu umferðaröryggi í tengslum við notkun smáfarartækja í umferðinni með þarfir notenda þeirra að leiðarljósi,“ segir enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert