Slysið sem varð í morgun í hverfi 105 og greint var frá á mbl.is kom til vegna þess að hjólreiðamaður hjólaði á rafhlaupahjól sem lá í götunni.
Þetta segir Birgir Fannar Birgisson, formaður Reiðhjólabænda, að hafi haft þær afleiðingar að flytja þurfti hjólreiðamanninn með sjúkrabíl á slysadeild. Rafhlaupahjólið hafi legið þvert yfir hjólastíg við Sæbraut með svartan stigflötin að þeim hjólandi svo að hann sást ekki í myrkrinu.
Í samtali við mbl.is segir Birgir að rafhlaupahjólin séu sniðug og gagnleg uppfinning en að þeim fylgi slysahætta ef ekki er alin upp góður frágangur í þeim sem nýta sér tækin. Spurður um hvað sé til bragðs að taka segir hann að ábyrgðina verði að setja á herðar þeirra sem leigja hjólin út.
„Ég held að það sé eingöngu með því að útleigjendur, hvort sem það er sá sem um ræðir í þessu tilviki eða einhver annar, séu á einhvern hátt gerðir ábyrgir fyrir þessu,“ segir Birgir og bætir við:
„Mér finnst ekki hafa verið nóg gert til þess að taka á þessu með rafhlaupahjólin og við höfum gert mjög mikið af því í hjólreiðasamfélaginu að benda á þetta vandamál og það er svolítið táknrænt að það sé fyrst haft samband við okur þegar slysið er búið að gerast.“
Birgir tekur dæmi um bílaleigubíla og segir að ekki tíðkist að skilja þá eftir á víð og dreif um borgina en viðurkennir að líklega sé það ekki besta dæmið. Engu að síður segir hann að ekki sé lengur hægt að búa við það að rafhlaupahjól séu skilin eftir um hvippinn og hvappinn, í leið annarra vegfarenda og þar sem skapast hætta af þeim.
„Það hlýtur að vera vandamál þeirra sem leigja þetta út að finna lausnir, af því þetta getur ekki verið bara vandamál allra annarra hérna í borginni,“ segir Birgir.