Hanna Björg biðst afsökunar á framkomu sinni

Hanna Björg og Sigga Dögg í Kastljósi í gær.
Hanna Björg og Sigga Dögg í Kastljósi í gær. Skjáskot/Ríkisútvarpið

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kynjafræðikennari, sem gagnrýnt hefur Sigríði Dögg Arnardóttur kynfræðing fyrir störf hennar á sviði kynfræðslu, hefur beðist afsökunar á framkomu sinni í Kastljósi í gær.

Birtir hún afsökunarbeiðni þessa efnis á Twitter en hún mætti Siggu Dögg í Kastljósi þar sem ræða átti hvernig standa skuli að kynfræðslu í skólum.

Hanna Björg hefur verið gagnrýnd harðlega á samfélagsmiðlum í kjölfar þáttarins og hafa margir lýst furðu sinni á málflutningi hennar og framkomu.

„Virkaði“ hrokafull og dónaleg

Hanna Björg segist algjörlega miður sín eftir þátt gærkvöldsins.

„Frammistaða mín var ekki góð – ég virkaði hrokafull og dónaleg, ég axla fulla ábyrgð á því,“ skrifar hún.

„Mér finnst ömurlegt að hafa dottið í þennan pytt – og þarna sýndi ég konu sem ég vil alls ekki vera. Ég bið Siggu Dögg hér með afsökunar í allri einlægni.“

Segist standa við gagnrýnina

Hún tekur fram að sér finnist Sigga Dögg hafa gert frábæra hluti, sett mál á dagskrá og komið með nýjan tón í kynfræðslu sem hún kunni að meta.

Gagnrýni hennar hafi snúist um það sem hún kallar viðhorf Siggu Daggar til kláms og kyrkinga í kynfræðslu.

„Við þessa gagnrýni stend ég um leið og ég harma að frammistaða mín í gærkvöldi hafi kæft málefnalega umræðu um kynfræðslu – mikilvæg sem hún er.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert