Dylan, Óríon, Lucy og Telekía fá grænt ljós

mbl.is/Eggert

Dylan, Óríon, Lucy og Telekía eru á meðal þeirra eiginnafna sem hafa fengið grænt ljós hjá mannanafnanefnd. Sömuleiðis hafa kynhlutlausu nöfnin Norður og Ragn fengið samþykki. Karlmenn mega núna heita Dylan, Óríon og Matheo og konur mega heita Telekía, Ástmarý og Lucy. Beiðni um kvenkyns eiginnafnið Ýda var aftur á móti hafnað, en úrskurðir nefndarinnar voru nýlega birtir.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Í ákvörðuninni vegna nafnsins Dylan reyndi á skilyrði nefndarinnar, miðað við að nafnið sé borið fram með enskum hætti, og væri þá „eðlileg íslensk stafsetning“ Dillan. Mannanafnanefnd taldi þó ekki hægt að gefa sér þær forsendur að framburður nafnsins yrði þannig. Var nafnið því samþykkt og fært á mannanafnaskrá.

Einnig var tekin fyrir endurupptökubeiðni vegna karlkyns eiginnafnsins Eldhamars. Ástæða beiðninnar var sú að í upphaflegri umsókn sinni hafði úrskurðarbeiðandi óskað eftir að taka upp nafnið Eldhamar sem millinafn. Síðar kom í ljós að hann gat ekki borið það sem millinafn. Því var óskað eftir því að mannanafnanefnd tæki málið upp aftur og fjallaði um nafnið Eldhamar sem eiginnafn. Samþykkti nefndin beiðnina. Millinafnið Eldhamar var jafnframt tekið af mannanafnaskrá.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert