Lýsa yfir hættustigi

Hættustig tekur gildi á miðnætti.
Hættustig tekur gildi á miðnætti. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkislögreglustjóri í samráði við alla lögreglustjóra á landinu hefur ákveðið að lýsa yfir hættustigi almannavarna frá miðnætti í kvöld vegna veðurs.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Þar segir að mikill viðbúnaður sé vegna óveðursins sem fram undan er út um allt land. Spáð er suðaustan roki eða ofsaveðri, 23-30 m/s með snjókomu og skafrenningi en slyddu næst sjávarsíðunni. Hvassast í efri byggðum höfuðborgarsvæðisins og á Kjalarnesi.

„Í dag funduðu Almannavarnir aftur með sérfræðingum Veðurstofunnar, viðbragðsaðilum, ábyrgðaraðilum raforku, fjarskipta og samgangna. Einnig voru á fundinum fulltrúar úr aðgerðastjórnun almannavarna um land allt.  Eins og í gær var farið yfir veðurspár og til hvaða viðbúnaðar þarf að grípa þegar óveðrið skellur á.“

Miklar líkur eru á foktjóni og ófærð innan hverfa. Fólk er hvatt til þess að ganga vel frá lausum munum og verktakar beðnir að ganga vel frá framkvæmdasvæðum.

Vegagerðin hefur ákveðið að loka vegum vegna veðursins, hægt er að fylgjast með lokunum á heimasíðu Vegagerðarinnar.

Foreldrar eru beðnir að fylgjast með hvernig skólahaldi verður háttað, nú þegar hafa einhverjir skólar ákveðið að hafa lokað á morgun.  

„Almannavarnir halda áfram að fylgjast vel með og miðla upplýsingum til fjölmiðla um stöðuna í öllum landshlutum,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert