Fréttavakt mbl.is mun standa vaktina lengur í kvöld og byrja fyrr en venjulega á morgun vegna þess óveðurs sem spáð er að gangi yfir landið í nótt og á morgun. Rauð viðvörun hefur verið gefin út á suðvestur hluta landsins og þá hefur ríkislögreglustjóri ákveðið að lýsa yfir hættustigi almannavarna frá miðnætti vegna veðursins.
Fréttavaktin á mbl.is og morgunþátturinn Íslands vaknar á K100 fara af stað klukkan 4:30 á morgun í staðinn fyrir klukkan 6 á hefðbundnum morgnum. Geta hlustendur og lesendur þar fylgst með nýjustu fréttum af veðri og færð.
Í viðvörunum vegna veðursins er meðal annars bent á að miklar líkur séu á foktjóni og ófærð innan hverfa. Fólk er hvatt til þess að ganga vel frá lausum munum og verktakar beðnir að ganga vel frá framkvæmdasvæðum.
Spáð er suðaustan roki eða ofsaveðri, 23-30 m/s með snjókomu og skafrenningi en slyddu næst sjávarsíðunni. Hvassast í efri byggðum höfuðborgarsvæðisins og á Kjalarnesi.
Vegagerðin hefur ákveðið að loka vegum vegna veðursins, hægt er að fylgjast með lokunum á heimasíðu Vegagerðarinnar.
Þá hafa þegar einhverjir skóla aflýst skólahaldi og líklegt er að fleiri fylgi í kjölfarið. Öllu millilandaflugi hefur einnig verið aflýst um morguninn.