Öll starfsemi Akureyrarbæjar úr skorðum

Þessi bíll sat fastur á Oddeyrargötunni í dag.
Þessi bíll sat fastur á Oddeyrargötunni í dag. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Öllu skólahaldi í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar, sem og Tónlistarskólanum á Akureyri, hefur verið aflýst á morgun.

Þetta segir í tilkynningu á vef bæjarins.

Gert er ráð fyrir afleitu veðri í Eyjafirði með mikilli vindhæð og ofankomu. Búist er við að ófært verði með öllu um götur bæjarins og er fólk hvatt til að vera sem minnst á ferli. 

Skólahald fellur niður.
Skólahald fellur niður.

Starfsfólk Akureyrarbæjar er hvatt til að vinna heima eftir því sem kostur er og verða skrifstofur sveitarfélagsins í Ráðhúsinu og Glerárgötu 26 lokaðar a.m.k. til hádegis. 

Á vinnustöðum Akureyrarbæjar þar sem fólk gengur vaktir, má búast við að fólk á næturvöktum verði beðið um að sinna störfum sínum í þjónustu við viðkvæma hópa þar til veðrinu slotar.

Björgunarsveitir á svæðinu munu gera það sem í þeirra valdi stendur til að aðstoða þennan starfshóp til að komast til og frá vinnu. Reynt verður að halda forgangsleiðum opnum frá kl. 5-7 í fyrramálið ef það mætti verða til að fólk sem þarf að mæta til sinna starfa komist frekar leiðar sinnar áður en veðrið versnar.

mbl.is/Þorgeir Baldursson

Þegar veður versnar verður öllum mokstri gatna hætt þar til um hægist.

Sundlaugin lokuð

Starfsemi í Plastiðjunni Bjarg-Iðjulundi og Hæfingarstöðinni í Skógarlundi fellur niður á morgun.

Strætisvagnar Akureyrar munu ekki ganga í fyrramálið og snjómokstri verður ekki sinnt á meðan versta veðrið gengur yfir. Akstur strætó hefst aftur þegar hægt verður að ryðja helstu leiðir.

Sorphirðu verður ekki hægt að sinna í fyrramálið og ferliþjónusta stöðvast um sinn.

Ýmsar aðrar stofnanir bæjarins verða lokaðar vegna veðurs, svo sem Sundlaug Akureyrar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert