Um 78 starfsmenn Landspítala gista þar í nótt vegna hinnar rauðu viðvörunnar sem tekur gildi klukkan 4 í nótt á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Faxaflóa.
Þetta segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, starfandi forstjóri Landspítala, í samtali við mbl.is.
Einungis er um að ræða það allra nauðsynlegasta starfsfólk sem þarf til að halda spítalanum á floti. Búist er við að aðrir starfsmenn komi til vinnu um tíuleytið.
„Við erum búin að vera undirbúa spítalann fyrir þessa rekstrarógn sem að við blasir. Þeir starfsmenn sem þurfa nauðsynlega að vera í húsi gista hér í nótt. Við höfum verið að taka rúm út úr geymslum og svo notum við dagdeildirnar,“ segir Guðlaug Rakel.
Þá biðlar Guðlaug til almennings um að vera ekki mikið á ferli fyrr en fer lægja.