„Við fylgjumst mjög vel með framvindunni og erum í startholunum,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, í samtali við mbl.is um storminn sem búast má við í nótt og í fyrramálið.
Hún segir að Landsnet hafi fundað alla helgina með almannavörnum og öðrum samstarfsaðilum.
„Við höfum verið að fara yfir hvað mögulega gæti gerst,“ segir Steinunn og bætir við að fleira starfsfólk verði til taks ef eitthvað kemur upp á, bæði í stjórnstöð og búið er að manna ákveðin tengivirki.
„Við erum að búa okkur undir eitthvað sem vitum ekki alveg hvernig verður, eða hvar, því allt landið er undir. Vonandi heldur flutningskerfið, en mögulega geta orðið einhverjar truflanir.“