Að minnsta kosti 10 bílar fastir í Þrengslunum

Björgunarsveitir sinna útköllum víða um land vegna veðurs.
Björgunarsveitir sinna útköllum víða um land vegna veðurs. mbl.is/Arnþór

Að minnsta kosti 10 bílar hafa lent í vandræðum í Þrengslunum í kvöld og hafa fest sig eða hafnað utanvegar. Björgunarsveitir úr Árnessýslu og Reykjavík voru kallaðar út til að aðstoða, að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar.

Veðrið hefur þyngst verulega seinni part dags og eru gular veðurviðvaranir í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði og Vestfjörðum.

Samkvæmt upplýsingum frá vegagerðinni hafa vindhviður í Þrengslunum mælst í 30 m/s. Það stendur þó ekki til að loka veginum þar í kvöld, það gæti þó alltaf breyst.

Vegurinn yfir Hellisheiði er lokaður og hefur þjónustustig við Þrengslin verið aukið og er þar nú sólarhringsvakt.

Útköll borist víða

Að sögn Davíðs Más hafa þó nokkur útköll borist vegna veðurs á Suðurlandi seinnipart dags. Voru margar þeirra vegna ófærðar og bíla sem sátu fastir. Bárust tilkynningar m.a. um fasta bíla við Hvolsvöll, nokkra bíla í Þrengslunum, og svo voru björgunarsveitir sendar úr Reykjavík um áttaleytið vegna fastra bíla við Litlu kaffistofuna.

Þá hafa björgunarsveitir einnig verið kallaðar út á Siglufirði og Ólafsfirði seinni partinn í dag vegna foks á lausamunum innanbæjar og við fjárhús.

Frá aðgerðum í kvöld við Litlu kaffistofuna.
Frá aðgerðum í kvöld við Litlu kaffistofuna. Ljósmynd/Landsbjörg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert