Hellisheiði enn lokuð og víða er ófært

Hellisheiði.
Hellisheiði. mbl.is/Óttar

Hálka eða krapi er á flestum leiðum á Suðvesturlandi. Veður er farið að ganga niður en enn eru margar leiðir lokaðar, til dæmis Hellisheiði og Þrengsli.

Búið er að opna Hringveg frá Hveragerði að Vík, Árborgarhringinn sem og Lyngdalsheiði. Þæfingsfærð eða krapi er víða á vegum, að sögn Vegagerðarinnar. 

Á Vesturlandi er hálka, krapi eða snjóþekja víða á vegum. Flughált er á köflum á Snæfellsnesi og enn er ófært um Bröttubrekku. Unnið er að mokstri.

Á Vestfjörðum er mokstur hafinn á mörgum leiðum en helstu leiðir eru þó enn lokaðar eða ófærar. Fært er á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur, sem og í Steingrímsfirði. Flateyrarvegur er lokaður vegna snjóflóðahættu og einnig Súðavíkurhlíð. 

Allir fjallvegir eru lokaðir á Norðurlandi. Ófært er í Eyjafirði og austantil í Skagafirði. Leiðir eru að opnast í Húnavatnssýslum og farið er að huga að mokstri í Skagafirði. Þungfært eða þæfingur er á flestum öðrum leiðum og stórhríð.

Siglufjarðarvegur og Ólafsfjarðarmúli eru lokaðir vegna snjóflóðahættu.

Á Austurlandi eru fjallvegir ýmist lokaðir eða ófærir og einnig er víða ófært á láglendi. Búið er að loka leiðinni á milli Hafnar og Reyðarfjarðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert