Komin yfir það versta á suðvesturhorninu

Björgunarsveitin hefur haft í nógu að snúast í nótt.
Björgunarsveitin hefur haft í nógu að snúast í nótt. Landsbjörg/Óðinn Sigurðsson

Jaðar skilanna sem fara nú yfir valda þrumum og eldingum líkt og sést hefur hér á höfuðborgarsvæðinu og á suðvesturhorni landsins í morgun.

„Rauða viðvörunin er vegna veðursins sem er á undan þessum skilum. Svo er þetta jaðar skilanna, þar eru þessar eldingar. Maður heyrir í rauninni skilin fara yfir því þau enda með hagli. Eldingarnar eru í þessum skilum,“ útskýrir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur.

Hann segir strax í kjölfarið snúist vindur og lægi. 

Einar segir að veður hafi náð hápunkti á höfuðborgarsvæðinu og sé að mestu gengið yfir. „Við erum komin yfir hápunkt á þessum hluta. Svo er seinni hlutinn síðdegis í dag; suðausturáttin,“ segir hann. 

Ansi hvasst verður síðdegis í dag og dimm él munu fylgja. Núna er hláka og 3-4 stiga hiti á höfuðborgarsvæðinu en svo kólni með suðaustanáttinni í dag. „Þá fáum við þessi dimmu él. Það veður dálítið mikil veðurhæð seinna í dag.“

Færist yfir í aðra landshluta

Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, tekur undir þetta í samtali við mbl.is og bendir á að vindurinn sé að ganga niður á Reykjanesinu, en á Reykjanesvita var vindur kominn í um 20 m/s eftir að hafa verið yfir 40 m/s þegar mest lét. Hún segir að þó að mesti vindurinn sé einnig að fara af höfuðborgarsvæðinu verði þar þó enn hvasst. „Þó að 20 m/s sé ekki lítið er þó mikill munur á því og um 40 m/s,“ segir hún, en víða á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess fór vindur vel yfir 30 m/s og kviður yfir 40 m/s.

Nú er hins vegar farið að hvessa á Norðvesturlandi og segir Birta að á Blönduósi mælist um 32 m/s vindur. Þá sé einnig að hvessa hressilega á Vestfjörðum og fljótlega muni vind taka upp á Norðurlandi og Austurlandi. Þar mun hámark stormsins verða um 10-11, en viðvaranir verða í gildi til klukkan 12. Á Austfjörðum verða viðvaranir lengst í gildi eða til klukkan 13:30.

„Það verður ekki jafn ofsafengið og núna“

Í kvöld má svo búast við að það verði aftur óveður, en þá er gert ráð fyrir suðvestan stormi með éljum. Settar hafa verið fram viðvaranir, þótt þær séu ekki á hæsta stigi eins og í nótt. Segir Birta að þá geti vindur farið yfir 30 m/s í kviðum. „Það verður ekki jafn ofsafengið og núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert