Lægðarskilin á hraðri leið norðaustur

Lægðarskilin eru á leið norðaustur.
Lægðarskilin eru á leið norðaustur. Kort/Veðurstofa Íslands

Lægðarskilin eru á hraðri leið norðaustur. Veðrið hefur hingað til verið verst á suðvesturhorni landsins en núna færist það yfir til Norðvesturlands og síðan austur yfir land. Appelsínugular viðvaranir eru í gildi fyrir öll spásvæðin utan suðvesturhornsins.

Veðrið á að ganga yfir um hádegisbil en síðasta gula viðvörunin fellur úr gildi klukkan 13.30 fyrir Austfirði, að því er kemur fram á vef Veðurstofunnar.

Ekkert ferðaveður á landinu

Ekkert ferðaveður er á landinu og vegir lokaðir víða um land. Til að mynda eru allir fjallvegir á Norðurlandi  lokaðir og á Austurlandi eru fjallvegir ýmist lokaðir eða ófærir. Þjóðvegur 1 er lokaður á Suðurlandi en þæfingsfærð er í uppsveitum Árnessýslu og stórhríð, að því er segir á vef Vegagerðarinnar.

Allar helstu leiðir eru lokaðar eða ófærar á Vestfjörðum. Fært er á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur en þar er stórhríð og skyggni á köflum lítið sem ekkert.

Mokstur á Akureyri.
Mokstur á Akureyri. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Vindurinn að taka sig upp fyrir norðan

Jóhann K. Jóhannsson, slökkviliðsstjóri í Fjallabyggð, segir stöðuna þar vera góða enn sem komið er en tekur fram að vindurinn sé að taka sig upp. Engin teljandi verkefni tengd óveðri hafa verið á borði björgunarsveitanna. „Ég held að fólk hafi tekið tilmælum vel og haldið sig heima að mestu. Það hefur verið mokstur innanbæjar og það er blint þegar vindhviður ganga yfir,“ segir Jóhann og nefnir að veðrið eigi ekki að ná hámarki þar fyrr en um níuleytið.

Varðstjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra segir allt vera mjög rólegt. Aðeins hafi bætt í vind austan- og norðan við Akureyri „en við teljum okkur sleppa nokkuð vel“. Hvasst hefur verið á Öxnadalsheiði, eða um 30 til 40 metrar á sekúndu, en hún er lokið rétt eins og aðrir fjallvegir.

Á Húsavík hafa björgunarsveitir ekið heilbrigðisstarfsfólki til vinnu, ásamt starfsfólki kísilverksmiðjunnar. Nokkuð hvasst er í bænum og dregið hefur í skafla. Úrkoma er lítil en skafrenningur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert