Veður á Akureyri er mun skaplegra en aðvaranir Veðurstofu Íslands og almannavarna gerðu ráð fyrir. Starfsemi og þjónusta Akureyrarbæjar er því smám saman að færast aftur í eðlilegt horf.
Þetta kemur fram í tilkynningu.
Miðað var við að akstur Strætisvagnar Akureyrar og ferliþjónustan hæfist klukkan 10 og leikskólar verða opnaðir kl. 12.30.
Ekkert skólahald verður í grunnskólum bæjarins í dag en frístund verður opnuð kl. 13.
Sundlaug Akureyrar var opnuð kl. 10 og skrifstofur sveitarfélagsins verða opnaðar aftur á hádegi. Á sama tíma verður opnað hjá Plastiðjunni Bjargi-Iðjulundi og í hæfingarstöðinni í Skógarlundi.